Björn Bjarnason skrifar:
Umboðsmaður barna sættir sig ekki við það sem mennta- og barnamálaráðuneytið og ráðherra hefur sagt um það sem snýr að matsferlinum sem hefur verið unnið að frá árinu 2020.
Hér var 21. ágúst vikið að svari mennta- og barnamálaráðuneytisins til umboðsmanns barna vegna málefna grunnskólans, dags. 19. ágúst, og sagt að það bæri merki þess að dagsetningin skipti meira máli en efnið, enda rann þennan dag út frestur sem umboðsmaður gaf ráðuneytinu 23. júlí til að svara erindi sínu.
Umboðsmaður barna brást við ráðuneytissvarinu með bréfi 22. ágúst og segir það ófullnægjandi. Umboðsmaður telur „óafsakanlegt að ekkert samræmt námsmat hafi tekið við af samræmdum könnunarprófum [í grunnskólum] eftir að þau voru síðast haldin árið 2021 og að enn ríki óvissa um hvenær áætlað sé að ljúka við innleiðingu á nýju samræmdu námsmati“.
Segir umboðsmaður að sú ábyrgð liggi hjá mennta- og barnamálaráðherra. Samræmt námsmat þjóni mikilvægu hlutverki, það eigi að veita nemendum upplýsingar um sína stöðu og varpa ljósi á stöðu skólakerfisins í heild. Þá beri að nýta niðurstöður matsins til að bæta þjónustu við nemendur og gæði grunnskólamenntunar. Sú óvissa sem hafi skapast varðandi samræmt námsmat, á kostnað grunnskólabarna og gæða skólastarfs, sé „með öllu óviðunandi“.
Í lok bréfsins segir umboðsmaður barna að svar mennta- og barnamálaráðuneytisins við erindi sínu frá 23. júlí hafi ekki „slegið á áhyggjur embættisins af innleiðingu á nýju samræmdu námsmati og eftirliti ráðherra með framkvæmd skólastarfs“.
Þarna fer ekkert á milli mála. Umboðsmaður barna sættir sig ekki við það sem ráðuneytið og ráðherra hefur sagt um það sem snýr að matsferlinum sem hefur verið unnið að frá árinu 2020 til að útrýma samræmdu námsmati sem gilti til 2021 og var þá afnumið án þess að nokkuð kæmi í staðinn og ráðherra vill afnema með lögum nú fyrir áramót án þess að vitað sé hvað komi í staðinn. Sagt hefur verið að það sjáist ekki fyrr en kannski árið 2026 eða 2027.
Þessi staða er vissulega með „öllu óviðunandi“. Reykjavíkurborg rekur 44 grunnskóla og er Helgi Grímsson forstöðumaður skólasviðs borgarinnar. Hólmfríður María Ragnhildardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem brugðið hefur ljósi á vandann í grunnskólum í blaðinu ræddi við Helga 13. ágúst.
Helgi er ekki talsmaður opinberrar upplýsingamiðlunar um skólastarf og af orðum hans má helst ætla að honum nægi að þekkja menntun og tekjur foreldra til að átta sig á námsgetu nemenda. Tekjur og menntun foreldra dugi til að ákvarða útdeilingu fjár til einstakra grunnskóla til að jafna aðstöðu nemenda og búa í haginn fyrir nám þeirra.
Hann geti stuðst við sex ára gamlar upplýsingar við ákvarðanir sínar og þurfi ekki samræmt námsmat af því að samsetning foreldra eftir skólahverfum hafi ekki breyst. Hvað skyldi hann hafa gamlar lýðfræðilegar upplýsingar? Liggur formúlan sem hann notar til að deila út fé til grunnskólanna á lausu?
Vegna fjölda grunnskóla í Reykjavík er stefnan sem mótuð er þar mjög ráðandi og sætti borgarstjórn sig við ráðaleysið sem einkennir viðbrögð mennta- og barnamálaráðuneytisins við bréfum umboðsmanns barna rekur áfram á reiðnum.
Til að átta sig á framkvæmd skólastarfs án upplýsinga stjórnenda á grunni samræmds námsmats ætti umboðsmaður barna að ræða við Reykjavíkurborg.
One Comment on “Óvissan um grunnskólann”
Góður pistill og þörf áminning.