Björn Bjarnason skrifar:
Hvalveiðiráðið ákveður sjálft örlög sín, verðir laganna ákveða örlög Watsons en stjórnmálaflokkar sem þekkja ekki eigin vitjunartíma tapa fylgi meðal kjósenda
Á vefsíðu Varðbergs birtist sunnudaginn 25. ágúst frétt þar sem segir að Alþjóðahvalveiðiráðið sé orðið að uppvakningi (e. zombie) og ætti að ákveða eigin endalok. Vitnað er í viðtal breska vikublaðsins The Observer við fyrrv. prófessor, Ástralíumanninn Peter Bridgewatert, sem var formaður hvalveiðiráðsins 1994 til 1997. Hann segir m. a.
„Ráðið gerði mikið gagn á síðustu öld. Það er nú á tímum í sömu stöðu og margar aðrar alþjóðastofnanir eða alþjóðasamningar sem hafa þjónað tilgangi sínum og ættu að hverfa þegjandi og hljóðalaust.“
Bridgewater ritar ásamt öðrum sérfróðum mönnum um hvali og fágætar dýrategundir grein í nýjasta hefti tímaritsins Nature. Greinarhöfundar segja að stolt vegna sögulegs árangurs skipti vissulega máli en það þjóni engum tilgangi að leyfa stofnunum að breytast í uppvakninga.
Þá segir í fréttinni að rannsóknir sýni að næstum allir hvalastofnar séu í vexti. Það eigi þó ekki við um sléttbakinn í Norður-Atlantshafi sem hafi farið illa af árekstrum við skip og við að flækjast í veiðarfærum.
Allt á þetta beint erindi inn í íslenskar stjórnmálaumræður þar sem ráðherrar eins stjórnarflokksins, VG, hafa lagt sig fram um að hindra hvalveiðar hér við land og beitt allt öðru en góðum stjórnarháttum.
Í fyrrnefndri grein fræðimannanna er einmitt minnt á að þrjár þjóðir, Íslendingar, Japanir og Norðmenn, stundi enn hvalveiðar og þótt Alþjóðahvalveiðiráðið hafi ekki haft þrek til að stöðva þær stækki hvalastofnarnir. Nota höfundar þetta sem eina af röksemdunum fyrir því að hvalir muni halda áfram að fjölga sér þótt ráðið hverfi úr sögunni.
Sé litið á Alþjóðahvalveiðiráðið sem uppvakning vaknar spurning um hvort nota eigi sama orð um þá sem halda að þeir séu að bjarga hvölum frá útrýmingu með því að fara á svig við góða stjórnarhætti hér á landi og stofna með því samstarfi í ríkisstjórn í hættu – gleðja þá sem þrífast á formælingum í garð stjórnarflokkanna.
Það er undir aðildarþjóðum Alþjóðahvalveiðiráðsins komið hve lengi ráðið lifir. Starfsmenn þess telja sig að sjálfsögðu ómissandi í þágu hvalanna og innan stjórnkerfa einstakra landa hafa einhverjir embættismenn hag af því að sýsla með málefni ráðsins og sækja fundi þess. Síðan eru hvalavinir sem kalla sig dýravini og náttúruverndarsinna uggandi verði þróunin sú að alþjóðastofnunum sem eru að nokkru skjól þeirra fækki. Þær hafa veitt þeim fræðilegar átyllur fyrir fjársöfnun og alls kyns aðgerðir.
Paul Watson, foringi hvalavinanna í Sea Shephard-samtökunum, sem framdi skemmdarverk hér á landi, er nú í varðhaldi í Nuuk á Grænlandi og bíður ákvörðunar danska dómsmálaráðuneytisins um hvort hann skuli framseldur að kröfu japanskra stjórnvalda vegna yfirgangs hans gagnvart japönskum hvalföngurum. Watson er ekki síður uppvakningur en Alþjóðahvalveiðiráðið, hann þrífst á fornri „frægð“ og nýtur nú einkum stuðnings frá frægum Frökkum!
Hvalveiðiráðið ákveður sjálft örlög sín, verðir laganna ákveða örlög Watsons en stjórnmálaflokkar sem þekkja ekki eigin vitjunartíma tapa fylgi meðal kjósenda.