Björn Bjarnason skrifar:
Allt sem Páll Vilhjálmsson hefur afhjúpað og haldið til streitu um blaðamannahópinn er í raun ótrúlegt á sama tíma og almenningur er varaður við að trúa því sem einstaklingar segja á eigin bloggsíðum.
Blaðamannahópurinn hefur beitt öllum ráðum til að þagga niður í Páli. Reynt var að knýja fram brottrekstur hans úr kennarastofunni og einnig var leitað til dómstóla til að fá hann dæmdan fyrir málflutning sinn. Allt kom fyrir ekki. Páll hélt sínu striki og rekur hann nú flóttann í liði andstæðinga sinna á meðan beðið er ákvörðunar ákæruvaldsins í svonefndu byrlunar- og símastuldarmáli, sem rekja má til heiftar blaðamannahópsins gegn Samherja.
Páll Vilhjálmsson hélt fast í fullyrðingar sínar um skattamál Sigríðar Daggar sem hrökklaðist úr Kastljósi sjónvarpsins en var kjörin formaður Blaðamannafélags Íslands og hefur gert það að fullu, launuðu starfi auk þess að ráða framkvæmdastjóra til félagsins og þrjá starfsmenn til að hugsa um frístundahús þess.
Fimm starfsmenn sinna nú því sem Hjálmar Jónsson gerði einn sem formaður og framkvæmdastjóri áratugum saman. Hann skilaði af sér blómlegu búi en var rægður af Sigríði Dögg og félögum í sjálfsupphafningu hennar, borinn röngum sökum um að hafa farið illa með fé félagsmanna. Hjálmar segir í opnu bréfi til félaga í BÍ sem birtist á Vísi 29. ágúst:
„Aðförin að mér hefur aldrei snúist um annað en hefnd vegna þess að ég gerði kröfu til þess að formaður félagsins gerði hreint fyrir sínum dyrum opinberlega þegar fjallað var um skattamál hans og meint ítrekuð skattalagabrot á opinberum vettvangi.“
Allt sem Páll Vilhjálmsson hefur afhjúpað og haldið til streitu um blaðamannahópinn er í raun ótrúlegt á sama tíma og almenningur er varaður við að trúa því sem einstaklingar segja á eigin bloggsíðum. Er fólki bent á að halda sig frekar við „viðurkennda fréttamiðla“. Þar telja enn margir ríkismiðla fremsta meðal jafningja.
Ríkisútvarpið hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum vegna þeirra mála sem hér eru nefnd og snerta í raun grunn þess að unnt sé að bera traust til fréttastofu þess, að þar ráði hlutlægni, ekki sé dreginn taumur eins aðila á kostnað annars og öll sjónarmið fái notið sín.
Það er sársaukafullt og særir stolt fjölmiðla að þurfa að hreinsa sig opinberlega af óværu sem hefur náð að búa um sig innan þeirra. Sumir hverfa einfaldlega eins og News of the World. Aðrir senda frá sér greinargerðir eða grípa til opinberra uppsagna. Í Efstaleiti ræður þögnin og trúverðugleikinn minnkar.
Í BÍ vill Sigríður Dögg festa sig í sessi með lagabreytingu um að svipta eldri félagsmenn atkvæðisrétti við stjórnarkjör. Þeir sýna félagi sínu áhuga og hittast undir merkjum þess en hún óttast að þeir styðji málstað Hjálmars sem hún hefur bannfært. Aldrei bárust fréttir um að Sólveig Anna Jónsdóttir hefði fundið upp á slíku til að treysta völd sín í Eflingu. Hún lét hreinsanir á skrifstofunni duga.