Þúsundir eða hundruð þúsunda mótmæltu í Brasilíu

frettinErlent, Geir ÁgústssonLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Það er eitthvað á seyði í Brasilíu. Yfirvöld þar á bæ eru núna að reyna koma á banni á miðlinum X (áður Twitter) enda málfrelsið orðið þeim óþægilegt og menn eins og Elon Musk þyrnir í augum þeirra.

Þessu hafa margir Brasilíumenn brugðist ókvæða við og streymt út á göturnar til að mótmæla. En hversu margir? Samkvæmt AP er um að ræða nokkur þúsund einstaklinga sem hlýða á ræður fráfarandi forseta, Bolsonaro, en samkvæmt öðrum heimildum er miklu nær að tala um hundruð þúsunda. Flestir miðlar segja svo ekki neitt. Ef marka má BBC er það helst að frétta í Brasilíu að bannið á X sé að fara í gegnum stjórnkerfið og viðbrögð við því frekar hófstillt.

Þetta minnir svolítið á mótmæli evrópskra bænda fyrir ekki löngu. Flestir fjölmiðlar fjölluðu lítið um þau en gerðu til vara lítið úr þeim. Örfáir bændur, ekkert að sjá hér. En upptökur frá mótmælunum voru margar og sögðu aðra sögu. Það blasir við að fjölmiðlar voru að forðast að segja frá stórum viðburðum - forðast að segja fréttir til að raska ekki frásögn yfirvalda og hrista í stoðum blekkinga.

Hinn venjulegi blaðamaður fær auðvitað ekki borgað aukalega fyrir að þagga niður í fréttnæmum viðburðum. Hann er ennþá á lélegum launum og vinnur langa vinnudaga. Ritstjórinn hans er jafnvel í sömu sporum. Báðir treysta á línuna sem er dregin af erlendum, alþjóðlegum fréttastofum sem vinna saman og með moldríkum eigendum sínum og ákveða hvað þolir dagsljósið og hvað ekki. Þeir sem víkja frá þeirri línu eru samsæriskenningasmiðir, óróaseggir og flytjendur falsfrétta.

Þetta sáum við svo skýrt á veirutímum að frekari dæmi er óþarfi að nefna, en dæmin eru mörg og þeim fer fjölgandi: Gangur mála á sléttum Úkraínu og Rússlands, mótmæli almennings gegn umhverfissköttunum og innflytjendaflóðinu, bændamótmælin og núna mótmælin í Brasilíu.

Sem er bara eins og það er. Ekki er hægt að ætlast til meira af fjölmiðlum sem taka sig svo hátíðlega að þeir hafa kastað fyrir róða öllum sjálfstæðum vinnubrögðum og fylgja einfaldlega línunni að utan.

Á meðan getum við lesið á einum stað að mótmæli séu lítil og ómerkileg og á öðrum að þjóð sé risin á afturlappirnar. Enn einu sinni.

Skildu eftir skilaboð