Páll Vilhjálmsson skrifar:
Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands bjargaði Evrópu, ef ekki heiminum, frá villimennsku fasisma í búningi stormsveita Hitlers, voru til skamms tíma viðtekin söguleg sannindi. Með ,,viðtekin" er átt við að þorri manna hafði fyrir satt að Churchill gerði gæfumuninn vorið 1940 þegar breskir ráðamenn veltu fyrir sér að semja við Hitler, eftir fall Frakklands, og gefa honum lausan tauminn í austurvíking.
Eldfimt viðtal Tucker Carlson við sagnfræðinginn Darryl Cooper er nýsaga, endurskoðun á viðteknum sannindum. Cooper segir Churchill mesta þorparann í seinna stríði, verri en Hitler og Stalín. Ekki það að sá breski hafi tekið þeim þýska og sovéska fram í manndrápum heldur átti Churchill að semja við Hitler og leyfa honum leggja undir sig Austur-Evrópu og Sovétríkin. Segir sem sagt Cooper hjá Carlson.
(Áður er lengra er haldið. Cooper og Carlson eru til hægri í pólitík. Nokkur hefð er fyrir gagnrýni vinstrimanna á Churchill, sem er ekki til umræðu hér).
Björn Bjarnason tók saman sjónarmið gagnrýnenda Cooper/Carlson. Á youtube má t.d. finna Konstantin Kisin og Pires Morgan taka í gegn Cooper/Carlson.
Sagnfræði er í grunninn tvennt, sögulegar staðreyndir og ályktanir af þeim. Cooper er gagnrýndur fyrir að fara rangt með sögulegar staðreyndir annars vegar og hins vegar rangar ályktanir. Af sjálfu leiðir að ályktanir af röngum staðreyndum eru á sandi byggðar. Rangar ályktanir af réttum sögulegum staðreyndum eru aftur meira álitamál. Cooper, eða einhver sem starfar í hans anda, gætu leiðrétt staðreyndavillurnar en samt komist að sömu niðurstöðu; að Bretar hefðu átt að semja við Hitler eftir fall Frakklands vorið 1940. Enginn veit hvað hefði gerst í framhaldi. Saga í viðtengingarhætti, stundum kölluð staðleysusaga, eru frjálslegar hvað ef pælingar.
Telegraph bendir á að Churchill-níð Cooper/Carlson fái hljómgrunn hjá sumum hægrimönnum sem harma vinstribeygju veraldarsögunnar eftir sigur bandamanna á Hitlers-Þýskalandi. Vinstribeygjan er staðreynd. Churchill tapaði fyrstu þingkosningunum eftir stríð. Verkamannaflokkurinn hóf sósíalíska þjóðnýtingu sem var ekki brotin á bak aftur fyrr en Thatcher kom til sögunnar 1979. Vestur-Evrópa var undirlögð kratisma og austurhlutinn kommúnisma allt kalda stríðið.
Eftir fall Berlínarmúrsins tók vinstrið hamskiptum. Gleymt var kjörorðið öreigar allra landa sameinist. Í staðinn komu gervivísindi(manngert veður, trans) og að einlægni standi ofar sannindum.
Bandaríkin urðu ekki jafn vinstrisinnuð og Evrópa eftir seinna stríð. Á seinni árum má þó ekki á milli sjá hvort vinstrið sé vitlausara, það bandaríska eða evrópska. Víst er að mesta ruglið, manngert veður og trans, er bandarískrar ættar og flutt út til Evrópu. Það er í þessu samhengi sem hægrimenn, einkum bandarískir, spyrja hvort ekki hefði verið betra að Dolli liðþjálfi hefði gúffað í sig meginland Evrópu og Sovétríkin í leiðinni.
Svarið er nei, það hefði ekki verið betra. Kratismi, vók og kynjavinstrið er alltaf skárri kostur en nasismi. Afdrif Scholl-systkina ættu að minna okkur á það. Besti kosturinn er þjóðleg íhaldssemi sem temur sér raunsæi í alþjóðasamskiptum.