Páll Vilhjálmsson skrifar:
Síðdegis í fyrradag lamaðist stjórnkerfi Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna í Líbanon er þúsundir símboða sprungu samtímis innan klæða liðsodda hryðjuverkamanna. Símboðar eru lítið tæki, minni en spilastokkur, sem hringt er í við bráðavá. Tækin voru, og eru jafnvel enn, notuð á sjúkrahúsum að kalla lækna og hjúkrunarlið á bráðadeild.
Hisbolla-samtökin nota símboðana til að kalla liðsmenn saman í skyndi. Hversdags er þorri hryðjuverkamannanna við dagleg borgaraleg störf en er símboðinn tifar og tístir er það herkvaðning. En nú bar svo við að einhver, líklegast ísraelska leyniþjónustan, hafði komið fyrir sprengiefni í þúsundum símboða Hisbolla-manna. Hvernig veit enginn. Tilgáta um að Ísraelar búi yfir aðferð til að valda sprengingu í rafhlöðum símboða er langsótt.
Ef gefið er að Ísraelsmenn standi að baki og tilviljun hafi ekki ráðið hvenær símboðarnir sprungu var atvikið í gær upphaf að stórárás Ísraelshers á Hisbolla í Líbanon. Gabi Taub, ísraelskur sagnfræðingur og myndbloggari, segir fyrsta skrefið í stórárás sé að lama stjórnkerfi andstæðingsins. Það hafi verið gert í gær. Sé það raunin ættu að hefjast hernaðaraðgerðir í beinu framhaldi. Annar möguleiki er að Ísraelar bíði eftir hefndaraðgerðum Hisbolla og noti þær til að réttlæta víðtækan hernað.
Enn er sú kenning að árásin á Hisbolla hafi verið gerð í gær til að sýna stafræna yfirburði Ísraela og valda úlfaþyt í herbúðum hryðjuverkamanna.
Aðgerðin tók langan tíma að skipuleggja. Hún verður ekki endurtekin. Margra mánaða undirbúningur þjónaði stærri tilgangi. Í morgun kom fram sú tilgáta að leyniaðgerð Ísraelsmanna hafi verið afhjúpuð. Í gær varð að beita vopninu ellegar færu símboðarnir í ruslið ósprengdir. Tímasetningar á skilaboðum eru stundum þaulhugsaðar en geta einnig verið tilviljun eða handvömm.
MAJOR DEVELOPING STORY: Hundreds of Hezbollah terrorists all over Lebanon were just killed / severely injured when their "pagers" all suddenly simultaneously exploded in a scene out of science fiction. pic.twitter.com/4VxzwXzonv
— Breaking911 (@Breaking911) September 17, 2024