Björn Bjarnason skrifar:
Þeir sem þóttust taka „faglega“ afstöðu til fjölmiðlafrumvarpsins með hag starfsmanna við fjölmiðla að leiðarljósi spáðu því að vegna laganna myndu að minnsta kosti 1.000 störf tapast.
Oftar en einu sinni hefur hugurinn leitað 20 ár til baka til herrans ársins 2004 þegar hlustað er á stjórnmálaumræður líðandi stundar. Þá sátu tveir flokkar saman í ríkisstjórn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.
Fyrri hluta árs lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem síðan er þekkt undir nafninu fjölmiðlafrumvarpið. Það varð til þess að Baugsmenn og blaðamenn í þeirra þjónustu sem enn starfa að fjölmiðlun, t.d. Reynir Traustason, Gunnar Smári Egilsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fóru hamförum í „fréttaskrifum“ til að koma frumvarpinu og ríkisstjórninni fyrir kattarnef.
Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var í framboði til endurkjörs, gekk til liðs við Baugsmenn og neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin.
Þá var kannað hvort samstaða næðist innan stjórnarflokkanna um að breyta lögunum og leggja fram nýtt frumvarp. Framsóknarmenn snerust gegn því og þóttust vita að Ólafur Ragnar myndi beita synjunarvaldi sínu að nýju. Þá var talað um að stjórnarsamstarfið héngi á bláþræði, komið hefði til stjórnarslita ef frumvarpið hefði ekki verið dregið til baka.
Vegna alvarlegra veikinda dró Davíð Oddsson sig í hlé síðsumars 2004 og Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, varð forsætisráðherra til ársins 2006 þegar Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við af honum og leiddi flokk sinn til kosninga vorið 2007 og myndaði stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, en hún hafði staðið einarðlega með Baugsmönnum í fjölmiðlastríðinu.
Ingibjörg Sólrún varð áfram borgarstjóri eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002 en þegar hún gekkst við því að hugur hennar stæði til Samfylkingarinnar sprengdi hún meirihlutann að baki sér og varð varaþingmaður Samfylkingarinnar eftir kosningarnar 2003.
Sé litið til umræðnanna um fjölmiðlafrumvarpið má sjá að þeir sem þóttust taka „faglega“ afstöðu til þess með hag starfsmanna við fjölmiðla að leiðarljósi spáðu því að vegna laganna myndu að minnsta kosti 1.000 störf tapast. Nýskipanin komst aldrei í framkvæmd en fjölmiðlar hafa dáið hver á eftir öðrum og Blaðamannafélag Íslands er á heljarþröm undir formennsku Sigríðar Daggar. Reynir Traustason heldur úti vefsíðu til að geta „pönkast“ á fólki og Gunnar Smári gekk af trúnni á kapítalismann eftir kynni sín af Baugsmönnum og stýrir nú miðli sósíalista.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem stýrði mörgum föllnum miðlum, hefur skrifað langa minningargrein um þá í misheppnaðri bók þar sem hann öfundast enn og aftur út í Morgunblaðið sem heldur velli en er komið með sjónvarps- og hljóðvarpssvip við hlið öflugrar vefsíðu.
Vondur hugur fjölmiðlamanna í garð stjórnmálamanna setur svip á opinberar umræður. Á fréttastofu ríkisútvarpsins ríkir neyðarástand vegna sakamálarannsóknar sem stjórnendur hennar og útvarpsins reyna að sópa undir teppið.
Ástandið væri örugglega ekki verra ef fjölmiðlalögin hefðu fengið að standa.