Björn Bjarnason skrifar:
Væri byrlunar- og símastuldarmálið ekki eins dapurlegur vitnisburður um hve lágt er unnt að leggjast í íslenskri blaðamennsku mætti líta á það sem grínmál við vikulegt uppgjör á föstudegi.
Á bandarískum vefsíðum gera menn gjarnan upp vikuna á léttum nótum með færslu undir skammstöfuninni TGIF (Thank God it is Friday). Þarna má til dæmis sjá endursagnir af skondnum viðburðum og því sem þykir næsta ótrúlegt.
Væri byrlunar- og símastuldarmálið ekki eins dapurlegur vitnisburður um hve lágt er unnt að leggjast í íslenskri blaðamennsku mætti líta á það sem grínmál við vikulegt uppgjör á föstudegi.
Yfirlýsing embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um málavexti, rannsókn þeirra og niðurfellingu rannsóknarinnar án sakfellingar er þungur áfellisdómur yfir vinnubrögðum sem flesta hefur líklega skort hugmyndaflug til að ímynda sér að væru stunduð á ritstjórn íslensks fjölmiðils – og það á fréttastofu sjálfs ríkisútvarpsins sem ekki þarf þó að selja æsifréttir til að hafa í sig og á heldur er áskrifandi hjá skattgreiðendum.
Breska götublaðið News of the World lifði á sölu æsifrétta. Græðgin leiddi blaðamenn þess æ lengra inn á grá svæði við öflun frétta.
Endalok blaðsins í júlí 2011 má rekja til ásakana um að það hleraði síma með því að brjótast inn í þá til að afla frétta. Hámarki náði fordæming almennings á þessu athæfi þegar í ljós kom að blaðið hafði hlerað síma Milly Dowler, skólastúlku sem féll fyrir hendi morðingja. Var blaðið sakað um að trufla morðrannsókn lögreglu og vilja hagnast á sorg fjölskyldu stúlkunnar.
Allt varð þetta mál til þess að margir breskir fjölmiðlamenn og stjórnendur í News Corporation fjölmiðlakóngsins Ruperts Murdochs, eiganda News of the World, sögðu af sér. Stofnuð var opinber rannsóknarnefnd (Leveson Inquiry) til að rannsaka siðferði og starfshætti breskra fjölmiðla. Murdoch bað Breta afsökunar, stofnaði sjóð til bæta þeim miskann sem urðu fyrir hlerunum starfsmanna hans og hætti útgáfu á News of the World.
Þegar þetta er skrifað hafa ekki neinar fréttir borist um að stjórnendur ríkisútvarpsins hafi beðið þá sem standa að baki rekstri þess, íslenska skattgreiðendur, afsökunar á að fréttastofa þess hafi verið notuð á þann veg sem fram hefur komið í greinargerð lögreglu.
Blaðamannafélag Íslands (BÍ) sýnir ekki heldur nein merki um iðrun heldur segir að rannsókn lögreglu á þessu máli sem var kært til hennar hafi verið „tilefnislaus“ og „lýsir félagið þungum áhyggjum af því að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra skuli um margra ára skeið hafa haft blaðamenn til rannsóknar fyrir að sinna starfi sínu“. Er það mat stjórnar félagsins að rannsóknin hafi „haft víðtæk fælingaráhrif“ á blaðamenn. Þá er lýst þeirri „von BÍ“ að það hafi ekki verið eitt af markmiðum lögreglu með rannsókninni að fæla blaðamenn frá að afla frétta.
BÍ og sakborningar gagnrýna lögreglu harðlega fyrir að skýra frá málavöxtum enda vita þeir eins og aðrir að ekkert gjaldfellir störf þeirra meira en vitneskja um forkastanleg vinnubrögð þeirra hvað sem líkum á sakfellingu líður.
Menn bíta höfuðið af skömminni með ýmsu. Einn fjölmiðlamanna málsins, Þórður Snær Júlíusson, boðar að hann sé á leið í framboð fyrir Samfylkinginguna. Hann ætlar sem sé að stjórnmálavæða þetta hneykslismál.
One Comment on “Svart fjölmiðlahneyksli”
Það er ekki oft sem ég er sammála Birni Bjarnasyni enn ég er sammála því sem hann segir í þessum pistli
Það að fremja glæp til að uppræta annan glæp á aldrei að líðast!