Hvalir og siglingar við Grænland

frettinBjörn Bjarnason, ErlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Í frétt á vefsíðu grænlenska ríkisútvarpsins KNR segir að órjúfanleg tengsl séu á milli hvala og Grænlendinga. Hvalir séu hornsteinn grænlenskrar matarmenningar og mikilvæg tekjulind veiðimanna.

Í Grænlandi ræða menn um þessar mundir hvort setja eigi í lög ákvæði sem banni ferðir skemmtiferðaskipa um hvalaslóðir inni á grænlenskum fjörðum.

Í frétt á vefsíðu grænlenska ríkisútvarpsins KNR segir að órjúfanleg tengsl séu á milli hvala og Grænlendinga. Hvalir séu hornsteinn grænlenskrar matarmenningar og mikilvæg tekjulind veiðimanna.

Þá hafi hvalir aðdráttarafl fyrir ferðamenn og heimamenn hafi tekjur af því að bjóða hvalaskoðunarferðir.

Kemur fram í fréttinni að það séu sameiginlegir hagsmunir veiðimanna og ferðaþjónustunnar að í væntanlegum ferðamálalögum verði stofnað til bannsvæða í þágu hvala og skemmtiferðaskipum bannað að sigla um þau. Fullyrða þeir sem krefjast bannsins að stóru skipin fæli hvalina á brott.

Rætt er við Mads Peter Heide-Jørgensen, prófessor við grænlensku Náttúrufræðistofnunina (Pinngortitaleriffik).

Hann segir að hér sé ekki unnt að draga upp einfalda mynd. Vissulega megi halda því fram að skipaumferð trufli hvali en einnig séu dæmi um að hvalir láti hana ekkert trufla sig, það ráðist mjög af því um hvaða hvalategund sé að ræða.

Sumir vilja að skemmtiferðaskipum verði bannað að fara um fjörðinn Nuup Kangerlua (160 km langan) á suðvesturströnd Grænlands. Höfuðborgin Nuuk stendur við hann. Rökin eru að skipstjórar erlendra skemmtiferðaskipa þekki ekki fjörðinn og sigli því um svæði sem séu heimkynni hvala.

Mads Peter Heide-Jørgensen bendir hins vegar á að hnúfubakarnir við Nuuk séu gott dæmi um að hvalir njóti sín bara vel í lifandi og háværu umhverfi. Rannsóknir sýni hins vegar að náhvalir við Austur-Grænland þoli hávaða illa og þeim sé ógnað með ofveiði. Skip í 30-40 km fjarlægð geti fælt náhvalina. Þeir forðist skemmtiferðaskip. Prófessorinn telur hins vegar skipin höfð að blóraböggli séu þau sögð valda fækkun hvala við austurströnd Grænlands.

Það fari hlutfallslega mjög fá skemmtiferðaskip upp að austurströndinni. Ekki sé orð á því gerandi þótt 5-10 skemmtiferðaskip fari um Scoresby-sund sem er lengsti fjörður í heimi. Fjörðurinn nær lengst um 350 km inn í austurströnd Grænlands og greinist í mörg minni sund og firði, en aðalfjörðurinn er um 110 km langur.

Mads Peter Heide-Jørgensen segir að NAMMCO hafi sagt að það besta sem sé unnt að gera fyrir náhvalina við Austur-Grænland sé að hætta að veiða þá. Verði veiði stunduð í sama mæli og núna hverfi náhvalirnir á tíu árum. Um það þurfi enginn að efast.

Fyrir utan að banna ferðir skipa vegna hvala ræða Grænlendingar einnig að banna skemmtiferðaskipum að sigla um hafsvæði fjarri björgunaraðilum.

Í því sambandi minnir grænlenska landstjórnin á að um miðjan september í fyrra strandaði Ocean Explorer með 206 manns um borð í Alpafirði fyrir norðan Ísland á Austur-Grænlandi. Grænlenskt rannsóknarskip dró skemmtiferðaskipið á flot á fjórða degi. Engan sakaði.

Skildu eftir skilaboð