Páll Vilhjálmsson skrifar:
Grænland fer undir áhrifasvæði Bandaríkjanna með góðu eða illu. Ekki vegna Trump sérstaklega heldur langtímaþróunar bandarískra öryggishagsmuna. Grænland verður áhrifasvæði Bandaríkjanna með sambærilegum formerkjum og Ísland með varnarsamningnum 1951.
Tilfallandi gerði fyrir fimm árum stuttlega grein fyrir fyrir bandarískri þróun í varnar- og öryggismálum undir fyrirsögninni Ísland er nærsvæði Bandaríkjanna. Atburðir síðan staðfesta þá þróun.
Grænlendingar mun fyrirsjáanlega taka til sín aukið, eða fullt, fullveldi frá Danmörku og gera varnarsamning við Bandaríkin. Grænlendingar vita sínu viti í utanríkismálum; þeir fyrsta þjóðin sem gekk úr Evrópusambandinu, gerðu það á síðustu öld, og lengi sú eina - allt fram að Brexit 2016.
Í bloggi í síðasta mánuði er ræddur Grænlandsáhugi Bandaríkjanna upp á síðkastið:
Bandaríkin, burtséð frá Trump, líta ekki lengur á meginland Evrópu sem sitt kjarnasvæði, líkt og þau gerðu eftir seinna stríð. Öryggishagsmunir Bandaríkjanna í austurátt liggja á Norður-Atlantshafi. Á dögum kalda stríðsins var talað um GIUK-hliðið, kennt við Grænland, Ísland og Bretlandseyjar. GIUk verður borgarhlið Bandaríkjanna gagnvart ESB-Evrópu. Dálkahöfundur Telegraph í Bretlandi spyr í hálfkæringi hvort ekki sé einfaldast að eyríkið verði 51sta fylki Bandaríkjanna. Bretar sjá tilvistarvanda nágranna sinna á meginlandinu.
Ógæfa Íslands er eini flokkurinn hér á landi með ESB-aðild á dagskrá er Viðreisn. Einmitt sá flokkur fer með utanríkisráðuneytið. Formaður flokksins og utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín, heimsótti Kænugarð um helgina eins og smurður Brussel-agent. Bandaríkin ætla að þvo hendur sínar af Úkraínustríðinu. Í Washington frá og með embættistöku Trump er litið á stríðið sem evrópskt vandamál.
Um sinn munu Bandaríkin starfrækja Nató en ekki til landvinninga í austri. ESB-Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum sem óvíst er að álfan ráði við. Bandaríkin eru ekki þannig í sveit sett að sitja uppi með öflugan óvin í túnfætinum; ESB-Evrópa gerir það svo sannarlega.
Einkaflipp Þorgerðar Katrínar í Kænugarði um helgina er smámál hjá þeirri stefnu Viðreisnar að Ísland verði ESB-ríki. Bandaríkin, með Trump eða án, líta það ekki vinsamlegum augum að greiða Evrópusambandinu leið til áhrifa á Norður-Atlantshafi. Það er algjörlega andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd að gefa ESB færi á Íslandi. Versta sem smáþjóð gerir sjálfri sér er að verða bitbein stórveldahagsmuna.
Evrópusambandið á fyrir höndum langa og stranga aðlögun að máttugu Rússlandi. Ísland innan ESB gæti orðið skiptimynt í þeim hráskinnaleik. Líkt og næstum gerðist laust eftir miðja 19. öld er Danir glímdu við Prússa og ígrunduðu að gefa Ísland í skiptum fyrir land þeim kærara.
Óvitarnir í Viðreisn valda okkur skaða með utanríkispólitík sem ekki er í neinu samræmi við þróun alþjóðastjórnmála og allra síst við gerbreytta stöðu á Norður-Atlantshafi.