Ísrael og Hamas hafa komist að samkomulagi um vopnahlé sem mun binda enda á 15 mánaða átök á Gasa. Samninganefndir hafa unnið að samkomulaginu í marga mánuði.
Donald Trump sem tekur við embætti Bandaríkjaforseta eftir fimm daga tilkynnti á samskiptamiðli sínum Truth, að samkomulag hefði náðst um lausn gíslanna sem eru í haldi Hamas samtakanna, 33 gíslum verður sleppt innan skamms, öllum konum verður sleppt.
AP fréttastofan segir fjölda fólks kominn saman í Khan Younis á sunnanverðu Gaza til þess að fagna samkomulaginu.
Samningsatriði hafa ekki að fullu verið gerð opinber. Reuters kveðst hafa upplýsingar um þau. Þar er til að mynda kveðið á um sex vikna vopnahlé, stigvaxandi brotthvarf ísraelskra hermanna úr Gaza, lausn gísla í haldi Hamas og lausn palestínskra fanga úr ísraelskum fangelsum.