Björn Bjarnason skrifar:
„Ríkisstjórn Íslands kemst ekki upp með tvískinnunginn í orðalagi stjórnarsáttmálans, að láta eins og um framhald aðildarviðræðna sé að ræða. Ætlar stjórnin að bera umsóknina frá 2009 undir þjóðaratkvæði eða umsókn sem tekur mið af stöðu mála árið 2027?“
Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hitti Maros Šefčovič sem stjórnar EES-málefnum í framkvæmdastjórn ESB á fundi í Brussel miðvikudaginn 15. janúar.
ESB-framkvæmdastjórinn flutti ræðu í hátíðarsal Háskóla Íslands í október 2022 í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins. Hann ræddi líka við Fréttablaðið 22. október og sagði um EES-samstarfið: „Við eigum vonandi önnur þrjátíu ár eða lengra fram undan.“ Hann átti von á að EES-samstarfið ykist frekar en hitt.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins um fund Þorgerðar Katrínar með Šefčovič segir að hún hafi lagt áherslu á vilja ríkisstjórnarinnar til að efla samstarf Íslands og Evrópusambandsins enn frekar og að staðinn yrði vörður um EES-samstarfið og það styrkt á víðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi. Þá hafi hún kynnt stefnu ríkisstjórnarinnar um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að ESB eigi síðar en árið 2027.
Šefčovič fer ekki með stækkunarmál ESB, þau eru á könnu Mortu Kos, fulltrúa Slóveníu í framkvæmdastjórn ESB. Utanríkisráðherra Íslands hitti hana ekki í þessari för sinni til Brussel. Björn Malmquist, fréttaritari ríkisútvarpsins, ræddi hins vegar við Guillaume Mercier, talsmann stækkunarstjóra ESB.
Á vefsíðu stækkunarskrifstofu ESB segir að nú séu umsóknarríki um aðild að ESB átta Albanía, Bosnía og Herzegovina, Moldóva, Norður-Makedónía, Serbía, Svartfjallaland, Tyrkland og Úkraína. Tvö ríki séu viðurkennd sem hugsanleg umsóknarríki, Georgía og Kosóvó.
Megi marka Guillaume Mercier lítur stækkunardeildin þannig á að umsókn Íslands um aðild að ESB sé enn í gildi (e. valid). Í frétt ríkisútvarpsins 15. janúar var hins vegar sagt að hann teldi umsóknina virka (e. active). Væri umsóknin virk hlyti Ísland að vera á meðal umsóknarríkja að sambandinu.
Rök Guillaume Mercier fyrir því að umsóknin sé enn í gildi er að hún hafi aldrei verið „formlega afturkölluð, þannig að í lagalegum skilningi er hún gild“.
Þessi skilningur talsmanns stækkunardeildarinnar er á skjön við skoðun íslenska utanríkisráðuneytisins um að aðildarviðræðunum við ESB hafi verið slitið. Þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, eru einnig þeirrar skoðunar að þeir hafi slitið aðildarviðræðunum. Er lítilsvirðandi að talsmaður ESB taki umboð þeirra til þess ekki gott og gilt. Það er grunnt á yfirþjóðlegum tóni Brusselmanna.
Svör Guillaume Mercier eru auðvitað í alkunnum jájá-neinei stíl ESB því að hann segir að taki Ísland upp „nýja stefnu“ og ákveði „að ræða aftur um aðild“ verði ráðherraráð og aðildarríki ESB að taka það fyrir og ákveða næstu skref. Málið færi því í raun í sama farveg og ný umsókn.
Ríkisstjórn Íslands kemst ekki upp með tvískinnunginn í orðalagi stjórnarsáttmálans, að láta eins og um framhald aðildarviðræðna sé að ræða. Ætlar stjórnin að bera umsóknina frá 2009 undir þjóðaratkvæði eða umsókn sem tekur mið af stöðu mála árið 2027?