Ekki hægt að hunsa Argentínu-undrið lengur

frettinErlent, Geir Ágústsson, StjórnmálLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Ástandið mun versna áður en það batnar.

Þetta sagði Javier Milei þegar hann í lok ársins 2023 var að hefja embættisferil sinn sem forseti Argentínu.

Hann lofaði að skera djúpt niður í útgjöldum ríkisins og hætta að prenta peninga til að stöðva verðbólgu. Ástandið versnaði. Flestir af okkur spekingum og snillingum spáðu því að áætlun forsetans myndi mistakast. Hann væri jú bara reynslulaus hægri-öfgamaður.

En það leið ekki ár þar til Milei hafði þaggað niður í öllum gagnrýnisröddum. Sumar hafa jafnvel breyst í viðurkenningu á árangri hans.

Um allt þetta og meira er fjallað í stuttu myndskeiði John Stossel:

Í Bandaríkjunum hafa menn tekið eftir og ný yfirvöld þar boða eitthvað svipað, þótt þar sé flækjustigið aðeins meira.

En hvað með Evrópu? Ekkert. Í Evrópu neita menn einfaldlega að læra nokkurn skapaðan hlut, því miður. Betra er gjaldþrot en timburmenn býst ég við.

Það verður samt erfiðara og erfiðara fyrir sósíaldemókrata þessa heims að halda uppi tálsýninni um endalausa eyðslu á lánsfé. Báknið er einfaldlega orðið svo stórt að ef minnsta stoð undir því brotnar þá leiðir það til þess að það hrynur ofan á samfélagið.

Tóku Argentínumenn áhættu af því þeir voru örvæntingarfullir?

Já, því þeir voru örvæntingafullur. Nei, því auðvitað virka aðferðir Milei, alltaf og hvar sem er.

Var árangur tryggður?

Nei, því innan stjórnsýslu eru alltaf leiðir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar breytingar, svo sem spilltir dómstólar og löggjöf sem ver spillt stjórnmál á kostnað almennings.

Er nýtt fordæmi fyrir stjórnmálamenn fætt?

Svo sannarlega.

Og mikilvirkasti þátturinn er að tala við kjósendur eins og fullorðið fólk sem kann á heimilisbókhald, en ekki eins og svanga krakka í nammibúð.

Er það eitthvað sem við viljum? Þá ættu næstu kosningar að afhjúpa það.

Skildu eftir skilaboð