Menning í mögnuðu myrkri – Vetrarhátíð 2025

frettinFréttatilkynning, Innlent, MenningLeave a Comment

Mögnuð Vetrarhátíð verður sett fimmtudaginn 6. febrúar 2025 á Ingólfstorgi. Hátíðin lífgar upp á borgarlífið og allir viðburðir tengjast ljósi og myrkri með einum eða öðrum hætti og frítt inn á alla viðburði.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri mun opna hátíðina með því að kveikja á ljóslistaverkinu Lightbattle III á Ingólfstorgi klukkan 19:00 þann 6. febrúar. Verkið kemur frá hollenska ljósahönnunar fyrirtækinu Venividimultiplex sem sérhæfir sig í ljóslistaverkum. Um er að ræða þátttökuverk sem sýnt hefur verið víðs vegar um heim og hefur slegið í gegn.

Í uppsetningunni eru tveir gagnvirkir ljósbogar, með samtals sex reiðhjólum, þrjú frá gagnstæðum hliðum. Þátttakendur setjast á hjólin og hjóla eins hratt og þeir geta. Hjólin keyra upp aflið sem kveikir á LED ljósboga og eftir því sem hjólað er hraðar því sterkari verða litirnir í ljósboganum og myndar skemmtilegt sjónarspil ljóss og lita.

Ljósaslóð

Ljósaslóð Vetrarhátíðar í ár er prýdd 20 verkum sem lýsa upp skammdegið á skapandi hátt og myndar gönguleið frá Hallgrímskirkju að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Sólólól bar sigur úr bítum í samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð 2025. Verkið er styrkt af Veitum og Reykjavíkurborg. Sólólól verður á Bernhöftstorfu og mun lýsa upp myrkrið eins og dagsbirtulampi. Listaverkið breikkar sjóndeildarhringinn og sýnir okkur hvernig sólstjörnurnar í nærumhverfinu okkar líta út. Áhorfendur tengjast vefsíðu með símanum sínum og velja þar um 6 mismunandi sólir til að kanna og baða sig í birtu þeirra. Að verkinu Sólólól standa þau Rebekka Ashley Egilsdóttir og Þorkell Máni Þorkelsson.

Spegill spegill er ljóslistaverk sem verður frumsýnt á Austurvelli á Vetrarhátíð, Verkið samanstendur af 10 speglasúlum og verður ljósi varpað á súlurnar og ljósið endurkastast á milli þeirra og myndar fallegt sjónarspil. Að verkinu stendur listhópurinn VHR og er samstarfsverkefni Vetrarhátíðar og Veitna.

Frelsaðir eftir Örn Ingólfsson, ljóslistamann, verður varpað á Hallgrímskirkju. Verkið táknar ljós, von og tilfinningar allt í senn. Þetta er í þriðja sinn sem verk hans eru á Ljósaslóðinni, það fyrsta Fangaðir var á Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, annað verkið var varpað úr Gróðurhúsinu á Lækjartorgi og í ár er það Frelsaðir á Hallgrímskirkju.

Ljóslistaverk og viðburðir þeim tengdum verða í gangi öll kvöld yfir hátíðina frá klukkan 18:30-22:30.

Danshópurinn Forward á Safnanótt í Listasafni Reykjavíkur á Vetrarhátíð 2024.

Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 7. febrúar 2025 og þá býðst gestum Vetrarhátíðar að fara á fjölmörg söfn (um 40 talsins) á öllu höfuðborgarsvæðinu. Boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Söfnin verða opin frá klukkan 18:00 til 23.00 og frítt inn.

Í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi opnar sýning Ragnars Kjartanssonar Heimsljós - líf og dauði listamanns. Verkið er kvikmynd sýnd á fjórum skjáum og unnin upp úr skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, Heimsljós (1937–40). Skáldsaga Laxness skiptist í fjórar bækur og á því byggist uppsetning myndbandsinnsetningarinnar. Á opnuninni munu Ragnar Kjartansson, Hildigunnur Birgisdóttir og Halldór Halldórsson segja frá tilurð verksins en tíu ár eru liðin frá því að hópur íslenskra listamanna, undir forystu Ragnars Kjartanssonar, breytti listasafni í Vínarborg í kvikmyndaver og vann að því að taka upp mynd byggða á Heimsljósi Halldórs Laxness.

Rafleiðsla verður haldin að öðru sinni í vélarsal gömlu rafstöðvarinnar í Elliðaárstöð í Elliðaárdal 7. febrúar frá klukkan 18-21. Rafleiðsla er hljóðbað sem gengur út á samtal í gegnum djúpa hlustun (e. deep listening) og stillta hugleiðslu (e. tuning meditation) og er dans á milli fyrirfram saminna tónsmíða og spuna.

Í Aðalstræti 10 er eftirmynd af nýlenduvöruverslun Silla & Valda frá árinu 1955. Verslunin er góður bakgrunnur fyrir skemmtilega myndatöku með vinum og fjölskyldu á Safnanótt.

Á Landnámssýningunni verða leikir og spil í boði en þá gefst einnig tækifæri til að skoða 12 litlar, litríkar mýs sem búa í safninu. Þær þvælast hingað og þangað, tvist og bast, og gestir geta reynt að finna þær. Þá verður kennt að spinna á snældu og sagt frá konum í fornum sögum sem frömdu spunagaldra.

Spunahópurinn HEY ætlar að spinna fram skapandi leiðsögn innan um höggmyndirnar í Listasafni Einars Jónssonar á safnanótt þann 7. febrúar. næstkomandi. Spunaleiðsögn er alltaf óvæntur og skemmtilegur leiðangur fyrir gesti og gangandi og ekki síst þá sem spinna.

Það er líka hægt að skella sér á Ljóðaslamm í Grófinni, skemmtilega teiknismiðju um dýrin í lífi okkar á Ljósmyndasafninu, Andóf í ástandsskjölunum á Þjóðskalasafni og Kvöldvöku við baðstofuna með kvæðamannfélaginu Iðunni á Þjóðminjasafni.

Sundlauganótt á Vetrarhátíð 2024.

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður haldin laugardaginn 8. febrúar 2025 en þá verður frítt í sund í Laugardalslaug frá klukkan 17:00 til 23.00.

Gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Glæsilegar sirkuslistir, bakkasöngur með Tómasi Helga trúbador og plötusnúðurinn DJ Fusion Groove sér um að halda uppi stuðinu.

Róandi hvalahljóð á Ylströndinni

Í fyrsta sinn verður boðið upp á dagskrá á Ylströndinni á Sundlauganótt. Ókeypis aðgangur verður frá kl. 18 til 22 og verður boðið upp á núvitund með hvölum í samstarfi við Whales of Iceland. Meðan gestir slaka á í pottinum á Ylströndinni hlýða þeir á róandi hvalahljóð auk myndbrota af hvölum frá Whales of Iceland. Einstakt tækifæri til að upplifa, njóta og slaka á með risum hafsins.

Í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði verður frítt frá 16-18 og boðið verður upp á hressandi skemmtidagskrá. Síkátu zúmbínurnar stýra Aqua zumba Mælt með því að koma með húfu eða sundhettu!

Í Ásvallalaugverður frítt frá 16-20 ! Gestir í Ásvallalaug fá að upplifa einstaka kvöldstund þar sem allskonar endur verða allsráðandi. Andaleikarnir Kl.17 og kl. 18 – Bombukeppni – Hver nær stærstu gusunni? Kl.17:30 og kl. 18:30 – Dýfingakeppni – Hver nær öndunum á botni laugarinnar? Verðlaun í boði! Kl.16 – 20 – Andrés Önd á risaskjá!

Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi og eru gestir hvattir til að slaka á og njóta stundarinnar.

Skemmtidagskrá í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Seltjarnarnesi

Forvitnileg og fjörug dagskrá verður á Safnanótt í Kópavogi. Stórtónleikar í salnum, Ó-hljóð nýtt ljóslistaverk á Kópavogskirkju, gjörningar, DJ Ívar Pétur, Karókístofa,fuglar á flandri og ljóðaupplestur.

Í Hafnarfirði verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og má þar nefna listasmiðju, vasaljósaleiðsögn, þjóðbúninga og skart, ratleikir, tónlist og margt fleira.

Í Garðabæ verður boðið upp á fjölskyldubingó, Tarotspámiðil, jazztónleika með Margréti Eir og félögum. Þá verður stuðdagskrá við á Hönnunarsafninu. Opnun sýningarinnar Barbie fer á Hönnunarsafnið verður opnuð þar má sjá sérhönnuð föt á Barbie-dúkkur eftir sjö fatahönnuði og svo verður dansað með Siggu Soffíu og DJ í lok kvölds.

Á Seltjarnarnesi verður skemmtidagskrá í boði í bókasafni Seltjarnarness frá klukkan 16-19. Bingó, myndlistarsýningar, tónlist, barnabókahöfundarnir Bergrún Íris og Gunnar Theódór koma í heimsókn, ratleikur, föndur, vinningar, pylsur, frostpinnar og margt fleira skemmtilegt.

Frítt inn á alla viðburði Vetrarhátíðar.

Skildu eftir skilaboð