Þórður Snær ræður skæruliða til Samfylkingar

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Þórður Snær fyrrum ritstjóri Kjarnans/Heimildarinnar og misheppnað þingmannsefni, nú framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar, réð náinn samherja í starf á alþingi í þágu Samfylkingar.

Samkvæmt vefsíðu alþingis er kominn til starfa fyrir þingflokk Samfylkingar Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður af Kjarnanum/Heimildinni.

Arnar Þór er meðhöfundur Þórðar Snæs af alræmdustu frétt síðustu ára, upphafsfrétt byrlunar- og símamálsins, sem birtist samtímis í Kjarnanum og Stundinni 21. maí 2021.

Þegar tilfallandi tók til að að skrifa um aðför skæruliðablaðamanna að Páli skipstjóra Steingrímssyni hótuðu Þórður Snær og Arnar Þór bloggara málssókn. Eftir að tilfallandi neitaði að biðjast afsökunar á sönnum ummælum, að Þórður Snær og Arnar Þór áttu aðkomu að byrlunar- og símamálinu, stefndu þeir tilfallandi, kröfðust ógildingar ummæla og milljóna króna í bætur. Skæruliðablaðamennirnir höfðu betur í héraðsdómi en töpuðu í landsrétti. Atlaga þeirra að tjáningarfrelsinu mistókst.

Samfylkingin tekur báða skæruliðablaðamennina upp á sína arma. Þórður Snær er fyrst ráðinn og hann ræður Arnar Þór. Auðvitað engin spilling að ráða vin sinn af gjaldþrota fjölmiðli í þægilega innivinnu á ríkislaunum. Tveir sérfræðingar í undirróðri gefa til kynna hvert Samfylkingin stefnir í málefnastarfi.

Tilfallandi skrifaði um niðurstöðu landsréttar þegar hann var sýknaður:

Þórður Snær og félagar [m.a. Arnar Þór] búa að vitneskju um aðdraganda og skipulag tilræðisins gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni. Þeir neita samvinnu við lögreglu og standa almenningi ekki reikningsskil gjörða sinna.

Forysta Samfylkingar er vel meðvituð að bæði Þórður Snær og Arnar Þór voru sakborningar í alvarlegu refsimáli sem enn er óupplýst. Þórður Snær og Arnar Þór voru ósamvinnuþýðir í skýrslugjöf til lögreglu. Þeir gerðu almenningi ekki heldur grein fyrir aðkomu sinni og vitneskju um byrlunar- og símamálið.

Samfylkingin gefur réttarríkinu langt nef með ráðningu blaðamannaskæruliðanna. Páll skipstjóri nýtur enn ekki réttlætis eftir að hafa orðið fyrir byrlun og gagnastuldi í þágu siðlausra blaðamanna.

Skildu eftir skilaboð