Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið vegna ofsaveðurs. Hjá Reykjavíkurborg verður víða lokað á meðan veðrið gengur yfir.
Rauð viðvörun hefur verið gefin út og gildir fyrir eftirfarandi tímasetningar:
- Í dag, miðvikudaginn 5. febrúar, frá kl. 16:00 – 20:00.
- Á morgun, fimmtudaginn 6. febrúar, frá kl. 08:00 – 13:00.
Forsjáraðilar eru beðnir að fylgja börnum úr skóla og frístundastarfi en síðan biðja Almannavarnir fólk að vera ekki á ferðinni á milli klukkan 16 og 19 í dag.
Öllum starfsstöðum menningar- og íþróttasviðs hefur verið lokað út daginn í dag en nýjar tilkynningar varðandi morgundaginn munu berast síðar á miðlum starfsstöðva og víðar. Starfsstaðir MÍR eru Sundlaugar Reykjavíkur, Ylströnd, Borgarbókasafn, Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur, Hitt húsið, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Skíðasvæðin í borginni og Bláfjöll.
Önnur þjónusta á vegum borgarinnar gæti raskast í einhverjum tilfellum, ekki síst ef starfsfólk lendir í vandræðum með að koma sér á milli staða. Allra leiða verður hins vegar leitað til að takmarka áhrifin og þjónusta sem ekki má raskast verður í forgangi. Forstöðufólk í húsnæði fyrir fatlað fólk og neyðarskýlum, stjórnendur heimaþjónustu og annarrar viðkvæmrar þjónustu eru meðvitaðir um stöðuna og gera ráðstafanir eftir þörfum. Við hvetjum öll til að fara varlega og fylgjast vel með tilkynningum frá Almannavörnum, þar sem spár geta breyst hratt.
Upplýsingar varðandi þjónustu morgundagsins verða gefnar út þegar þær liggja fyrir.
Vinsamlegast athugið:
- Mikilvægt er að festa lausamuni til þess að koma í veg fyrir foktjón.
- Mikilvægt er að losa frá niðurföllum til þess að koma í veg fyrir vatnstjón.
- Fylgið fyrirmælum og uppfærslum frá yfirvöldum.
Fylgist með:
- Fréttum og uppfærslum á fréttamiðlum.
- Frekari upplýsingum á: https://www.vedur.is/vidvaranir/svaedi/rvk
- Færð á vegum: https://www.umferdin.is