Björn Bjarnason skrifar:
J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, flutti ræðu á öryggisráðstefnunni í München föstudaginn 14. febrúar án þess að minnast einu orði á stríðið í Úkraínu eða hernaðarógn frá Rússlandi.
Að mati varaforsetans stafar mesta hættan í Evrópu frá Evrópuríkjunum sjálfum og stjórnarháttum þeirra. Hann gagnrýndi meðal annars a.m.k. tvisvar sinnum að forsetakosningar hefðu verið ógiltar í Rúmeníu vegna erlendrar íhlutunar sem hefði blekkt kjósendur. Taldi hann það ásamt fleiru til marks um að í Evrópu væru menn að hörfa frá sumum mikilvægustu grunngildum sínum sem þeir ættu sameiginleg með Bandaríkjamönnum.
Í upphafi ræðunnar lýsti hann samúð með þeim sem urðu illa úti í hryðjuverkaárás í München fimmtudaginn 13. febrúar og tók salurinn undir orð hans með lófataki. Þá sagði hann í léttum dúr að vonandi yrði þetta ekki síðasta lófatakið sem hann fengi fyrir ræðuna.
Í frétt Reuters segir að á fyrstu stigum ræðunnar hafi nokkrum sinnum verið klappað en lófatakið hafi minnkað og lengra orðið á milli þess eftir því sem varaforsetinn varð harðorðaðri í gagnrýni sinni á Evrópu.
Ekkert hafi til dæmis verið klappað eftir að þessi orð féllu:
„Ég segi þetta einungis til gamans. Hafi bandarískt lýðræði getað lifað af skammir frá Gretu Thunberg í 10 ár þá getið þið lifað af Elon Musk í fáeina mánuði.“
Sabine Siebold, fréttaritari Reuters í München, segir: „Ég var í einu af hliðarherbergjunum þegar ég sá Vance tala og fólk sat þögult af undrun.“
Sumir brostu vantrúaðir þegar hann fékk fyrsta litla klappið. „Ein manneskja byrjaði að klappa en hætti strax við það. Svipurinn á fólki einkenndist af vantrú, áhyggjum og efa,“ segir hún.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra í Svíþjóð, sagði á X að ræða Vance hefði verið „umtalsvert verri“ en hann vænti: „Í besta falli skipti hún alls engu máli með hliðsjón af öryggi Evrópu eða heimsins. Í versta falli blandaði hann sér á augljósan hátt í þýsku kosningarnar fyrir þá sem eru yst til hægri, AfD.“
Tom Jensen, aðalritstjóri danska blaðsins Berlingske, segir að Vance hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann ræddi tjáningarfrelsið og rétt fólks til að láta í ljós skoðanir sínar. Sama gilti um afstöðu hans til yfirþyrmandi straums innflytjenda.
Það væri hins vegar áhyggjuefni að heyra hann tala um aðra hluti eins og að lýðræðisríkin í Vestur-Evrópu væru hættulegri frelsi og lýðræði en Rússland. Hvernig ætti að skilja þessi orð hans á annan veg? „Þið eruð meiri ógn við ykkur sjálf en Rússland í ykkar garð.“
Segir Tom Jensen að það sé eiginlega alveg galið að varaforseti Bandaríkjanna taki til máls í hjarta Evrópu til að flytja þennan boðskap.
Hér er enskur texti ræðu J.D. Vance í heild.
Greinin birtist fyrst á Varðberg.is 14.2.2025