Evrópa vill stríð, Trump frið

frettinErlentLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Herská ESB-Evrópa og Ísland, ef marka má Kristrúnu og Þorgerði Katrínu, vilja halda áfram stríði í Úkraínu. Ekki er nóg drepið, limlest og eyðilagt. Meiri hörmungar þarf til að fullnægja drápsfúsri ESB-Evrópu og væntanlegri hjálendu. Trump Bandaríkjaforseti boðar á hinn bóginn frið. Rússar eru tilbúnir í viðræður við Trump en hvorki við ESB-Evrópu né Selenskí, umboðslausan Úkraínuforseta.

Tvær meginástæður eru fyrir stríðslyst ESB-Evrópu. Í fyrsta lagi að víkka út ytri landamæri meginlandsklúbsins með Brussel sem höfuðborg. Í öðru lagi að þétta raðirnar. Fátt eykur meira samheldni og samræmt göngulag Evrópusambandsins en sameiginlegur óvinur - Rússland.

Trump er ekki haldinn Rússafóbíu og lítur ekki svo á að Pútín stefni á heimsyfirráð, líkt og Brussel-klíkan gerir. Bandaríkjaforseti segir Úkraínustríðið tilgangslaust, mannslífum og verðmætum sé fórnað til einskins. Sjónarmið ESB-Evrópu og Íslands er að stríðið þjóni göfugum pólitískum tilgangi.

ESB-elítan vonaðist til að á öryggisráðstefnunni í München um liðna helgi myndu Bandaríkin og ESB-Evrópa stilla saman strengina. Símtal Trump og Pútín fyrir ráðstefnuna sló á þær væntingar. Ræða Vance varaforseta Bandaríkjanna á sjálfri ráðstefnunni gerði úti um allar vonir að ESB-Evrópa og Bandaríkin yrðu samstíga að leysa Úkraínudeiluna. Evrópa, sagði Vance, hefur tapað grunngildum sínum. Evrópskar árásir á tjáningarfrelsið heima fyrir er meiri ógn við frelsi og velsæld álfunnar en Rússland.

Gagnólík heimssýn skýrir staðfest hyldýpi á milli Trump-Ameríku og ESB-Evrópu. Trump viðurkennir að heimsbyggðin sé ekki einpóla með Bandaríkin sem æðsta yfirvald. Sitjandi Bandaríkjaforseti ætlar að ná samstöðu og gagnkvæmum skilningi með Rússlandi, og síðar Kína, um hvernig skynsamlegast sé að haga málum. Komist á eðlileg samskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands veikist Kína sjálfkrafa eru óskráð undirmál Trump-stefnunnar í nýjum margpóla heimi. Í stað einpóla heims verður til þríveldi. Kjörstaða Bandaríkjanna er að deila og drottna í þríveldinu.

Það var sjálfur Pútín sem árið 2007, fyrir 18 árum, einmitt á öryggisráðstefnunni í München, varaði við einpóla heimi. Þegar Pútín talaði í München fyrir 18 árum var Trump að reyna fyrir sér í sjónvarpsseríu sem hét Lærlingurinn. Hér heima var Kristrún nýfermd og Þorgerður Katrín upptekin að semja um kúlulán sem hún ætlaði aldrei að borga. Stöllurnar halda engu að síður að þær kunni utanríkispólitík og binda sitt trúss, og Íslands, við hornkerlinguna í Brussel.

Einfalt er að útskýra heimssýn Brussel-klíkunnar. Einpóla heimur þar sem Bandaríkin eru sykurpabbi ESB-Evrópu. Heimsmyndin hrundi um liðna helgi í beinni útsendingu í München. Í lok ráðstefnu grétu fullorðnir menn í ræðustól er sykurpabbinn yfirgaf samkvæmið og skellti á eftir sér hurðinni.

Sjónarhorn Trump er að Úkraína sé smámál sem þarf að afgreiða áður en varanlegar breytingar verða á heimsskipan, sem í grunninn var ákveðin í lok seinna stríðs og viðhaldið af vestrinu eftir lok kalda stríðsins. Trump er raunsæismaður, ekki hugsjónavingull með dagdrauma um ímyndaðan heim. Ekki frekar en að trúir að kynin séu þrjú, fimm eða seytján. Evrópu-elítan er hinsegin, Trump veruleikinn.

Trump kemur úr heimi viðskipta. Hann er með varaáætlun, verði ekkert af samkomulagi við Rússa um lok Úkraínustríðsins. Varaáætlunin gerir ráð fyrir að Bandaríkin eignist náttúruauðlindir og innviði Úkraínu, landið verði í raun hjálenda Bandaríkjanna, og stríðið haldi áfram með auknum tilstyrk frá Washington. Í samanburði við varaáætlunina um Úkraínu er Gasa-yfirtaka Bandaríkjanna hjóm eitt.

Rússum er kunnugt um varaáætlun Trump. Pútín virðist hafa fengið þau skilaboð frá Trump að Rússar megi halda herteknu svæði, um 20% af Úkraínu, auk Krímskaga, og að Úkraína verði ekki Nató-ríki. Vitað er að Rússar hafa augastað á tveim stórum borgum sem eru í grunninn rússneskar, Ódessa og Karkhív. En þeir fá þær ekki, samkvæmt Trump-áætluninni. Rússar vita þó að lofi Bandaríkin að enginn bandarískur hermaður verður sendur til Úkraínu að gæta friðar er skilið eftir valdatóm sem hermenn ESB-Evrópu geta ekki fyllt. Rússar verða með svigrúm til að auka áhrif sín eftir að friður kemst á.

Stærsti ávinningur Rússlands verða ekki landvinningar eða Nató-bann á Úkraínu. Heldur hitt að Rússar fá aftur sæti við háborð stórveldanna, viðskiptaþvingunum verður aflétt. Og ekki leiðist Pútín að sjá ESB-Evrópu meðhöndlaða sem sveitarómaga.

Niðurstaða friðarviðræðna Trump og Pútín er ekki komin. Selenskí Úkraínuforseti virðist telja málið útkljáð. Hann flaug í gær til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og undirritaði víðtækan samning um að úkraínskt fé, sem einu sinni var vestrænt, fái heimilisfestu fjarri vígaslóð og yfirvofandi rússneskum friði.

Skildu eftir skilaboð