Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá samskiptum Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar. Morgunblaðið birtir hluta samskiptanna sem fóru fram 24. ágúst 2021. Byrlunar- og símamálið hófst þá um vorið þegar eiginkonan byrlaði skipstjóranum, stal síma hans og færði Þóru til afritunar. Lögreglan á Akureyri fór með rannsóknina enda skipstjóranum byrlað í höfuðborg Norðurlands.
Síðsumars 2021 var lögreglurannsóknin enn á frumstigi. Blaðamenn höfðu veður af rannsókninni og vildu freista þess að flytja hana frá lögreglunni á Akureyri til héraðssaksóknara í Reykjavík. Blaðamennirnir töldu eiginkonunni, sem er alvarlega andlega veik, trú um að rannsóknin á henni tengdist Namibíumálinu og vildu að hún gæfi sig fram við héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að byrlunar- og símamálið yrði sameinað Namibíumálinu. Eini samnefnari Namibíumálsins og byrlunar- og símamálsins er að blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru upphafsmenn í báðum tilvikum.
Tilfallandi fjallaði um samskipti Þóru og byrlara Páls skipstjóra fyrir hálfu öðru ári:
Úr símanum 680 2140 var Þóra í reglulegum samskiptum við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra. Hún er andlega veik, hefur tvisvar verið nauðungarvistuð á sjúkrastofnun, talin sjálfri sér hættuleg og öðrum. Eiginkonan sá um byrlun og símastuld í samráði við blaðamenn.
Blaðamenn urðu þess áskynja sumarið 2021 að lögreglurannsókn væri hafin. Skipstjórinn hafði kært málið 14. maí þá um vorið.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins enda var Páli byrlað á Akureyri. Þóra og samstarfsmenn hennar á RSK-miðlum fengu veiku konuna til að banka upp á hjá héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að forræði rannsóknarinnar flyttist þangað og yrði sameinað Namibíumálinu svokallaða.
Sá sem fer fyrir Namibíumálinu hjá héraðssaksóknara er Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari. Bróðir hans, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður er einn fimm sakborninga RSK-miðla. Plottið gekk út á að Finnur Þór myndi fella niður lögreglurannsóknina.
Sumarið 2021 var rannsókn enn á frumstigi. Enginn hafði verið yfirheyrður, hvorki eiginkona skipstjórans né blaðamenn. Þar af leiðir var enginn kominn með stöðu sakbornings í málinu. Eiginkonan var sú fyrsta sem boðuð var í yfirheyrslu og það var ekki fyrr en 5. október 2021. Blaðamenn töldu að þeir gætu bjargað sér fyrir horn með því að rannsókn málsins flyttist til héraðssaksóknara þar sem Finnur Þór er fyrir á fleti.
Veika konan, forrituð af blaðamönnum, mætti óboðuð til héraðssaksóknara 10. september 2021 til að tjá sig um Namibíumálið og Samherja. Allar upplýsingar um þau mál hafði eiginkona Páls vitanlega fengið frá blaðamönnum enda hún aðeins tengd Samherja með hjónabandi við skipstjóra hjá útgerðinni. Ekki það að blaðamenn reyndu ekki að fá hana til verka. Í lögregluskýrslum eru samskipti sem sýna að heimsókn veiku konunnar til aldraðrar móður Þorsteins Más forstjóra Samherja var rædd. RSK-liðum er ekkert heilagt.
Lögreglufulltrúi tók á móti eiginkonu skipstjórans 10. september 2021 og kallaði til annan starfsmann embættisins, mögulega var það Finnur Þór eða undirmaður hans. Konunni hafði verið sagt að tilkynna að hún hefði upplýsingar um Namibíumálið sem hún vildi koma á framfæri. Það átti að vera tilefnið til að færa forræði rannsóknar á byrlun og símastuldi suður yfir heiðar.
Lögreglufulltrúinn sem tók á móti konunni skrifaði skýrslu, dagsett 14. mars í ár, 2023, þar sem hann greinir frá heimsókn konunnar. Þar segir að þáverandi eiginkona skipstjórans hafi verið ,,í mjög miklu andlegu ójafnvægi. Hún óð úr einu í annað og grét mikið."
Eiginkonan var buguð, fárveik andlega og undir stöðugum ágangi blaðamanna sem spiluðu á ranghugmyndir hennar um lífið og tilveruna. Héraðssaksóknari gat ekki notað játningar eiginkonu Páls sem rök til að taka yfir málið og sameina það Namibíumálinu.
Af Finni Þór er það að frétta að hann hætti hjá héraðssaksóknara og gerðist dómari við héraðsdóm Reykjavíkur. Þegar einni angi Namibíumálsins, réttarstaða Örnu McClure kom til kasta héraðsdóms, gerði Finnur Þór allan dómstólinn vanhæfan. Heilir 24 dómarar urðu vanhæfir á einu bretti - sennilega Íslandsmet. Finnur Þór varð að segja sig lausan frá dómarastörfum og var fluttur til í stjórnkerfinu, stýrir núna rannsókn á Súðavíkursnjóflóðinu. Samkrull embættismanna og blaðamanna sem láta lög og siðareglur lönd og leið er meinsemd sem grefur undan réttarríkinu.
Byrlunar- og símamálið heldur áfram að eitra samfélagið, fjórum árum eftir að það hófst. Þeir sem mest vita um málið þegja þunnu hljóði. Þeir eru: Þóra Arnórsdóttir nú á Landsvirkjun, áður ritstjóri Kveiks, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni, áður á Stundinni og RÚV, Þórður Snær Júlíusson áður ritstjóri Kjarnans en nú framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Það er í þeirra höndum að upplýsa hvernig það atvikaðist að blaðamenn RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, hófu samstarf við andlega veika konu sem vann óhæfuverk í þágu blaðamanna og fjölmiðla þeirra.