Þóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur um land allt í dag, 17. júní, í ár verða hátíðar- og skemmtidagskrár sérlega glæsilegar þar sem 80 ár verða liðin frá því íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum.
Fréttin tók saman það helsta sem boðið verður upp á yfir daginn á nokkrum stöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.
Reykjavík
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní verður fjölbreytt dagskrá í höfuðborginni allan daginn. Dagurinn hefst klukkan 11:10 með hátíðlegri athöfn á Austurvelli. Forseti Íslands leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jón Sigurðssonar og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur hátíðarræðu. Fjallkonan flytur einnig ávarp og nýstúdentar leggja blómsveig við leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að athöfninni lokinni.
Þá verður haldið í skrúðgöngu frá Austurvelli í Hólavallakirkjugarð. Í kjölfarið á því taka við alls konar skemmtanir fyrir unga og aldna. Tónleikar, götuleikhús, dans, matarvagnar og margt fleira.
Á vefnum 17juni.is má skoða dagskrána í Reykjavík nánar. Þar er einnig hægt að finna upplýsingar um götulokanir.
Kópavogur
Í Kópavogi verður boðið upp á skemmtidagskrá bæði á Rútstúni og við Versali frá klukkan 14:00 til 16:00, en leiktæki og hoppukastalar opna klukkan 12:00. Þá verður einnig hátíðardagskrá í anddyri Salarins frá klukkan 13:00.
Klukkan 13:30 hefst skrúðganga frá Menntaskólanum í Kópavogi og að Rútstúni. Við Menningarhúsin í Kópavogi verður svo dagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00 með hinum ýmsu skemmti- og tónlistaratriðum.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Kópavogsbæjar.
Hafnarfjörður
Þjóðhátíðarveisla sem teygir anga sína víða um bæinn verður í boði víðsvegar um Hafnarfjörð. Þjóðhátíðardagurinn hefst með fánahyllingu á Hamrinum klukkan átta í boði Skátafélagsins Hraunbúa og lýkur með glæsilegri kvölddagskrá á Thorsplani.
Þjóðbúningasamkoma verður haldin í Flensborg klukkan ellefu og klukkan eitt verður gengin skrúðganga frá Flensborgarskólanum niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani. Þar hefjast svo hátíðarhöldin klukkan hálf tvö.
Dagskrána má lesa á vef Hafnarfjarðarbæjar.
Garðabær
Í Garðabæ verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna sem hefst klukkan 13:00 með skrúðgöngu sem fer frá Hofsstaðatúni á Garðaborg þar sem töfrar, söngvar og dansatriði verða á dagskrá.
Bílastæði Garðatorgs verður svo breytt í skemmtisvæði fyrir börnin með hoppuköstulum, en einnig verður fánasmiðja og andlitsmálun í boði á Garðatorgi. Deginum lýkur svo með hátíðartónleikum í Tónlistarskóla Garðabæjar klukkan 20:00.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Garðabæjar.
Mosfellsbær
Dagskráin í Mosfellsbæ hefst klukkan 11:00 með hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju. Klukkan 13:30 verður svo skrúðganga frá Miðbæjartorginu að Hlégarði þar sem fjölbreytt fjölskyldudagskrá verður í boði.
Klukkan 16:00 verður keppt um titilinn Sterkasti maður Íslands og Stálkonan 2024 á Hlégarðstúninu.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Mosfellsbæjar.
Seltjarnarnes
Á Seltjarnarnesi verður hátíðardagskrá sem hefst klukkan 10:00 með bátasiglingu frá smábátahöfninni. Klukkan 11:00 verður hátíðarguðþjónusta í Seltjarnarneskirkju og klukkan 12:45 fer skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarness yfir í Bakkagarð.
Í Bakkagarði verður fjölbreytt dagskrá með hinum ýmsu atriðum, en þar verða einnig leiktæki, hestateymingar og fleira skemmtilegt á milli klukkan 13:00 til 15:00.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Seltjarnarness.
Akureyri
Á Akureyri hefjast hátíðarhöldin klukkan 11:00 þegar blómabíllinn leggur af stað frá Naustaskóla, en hann verður við Lystigarðinn um klukkan 12:00. Klukkan 12:30 hefst svo skrúðganga frá Gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti og suður í Lystigarðinn þar sem verður hátíðardagskrá frá klukkan 13:00 til 13:45.
Klukkan 14:00 hefst svo fjölbreytt fjölskyldudagskrá bæði á MA-túninu og í Lystigarðinum og klukkan 17:00 verður skemmtisigling með Húna II.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Akureyrarbæjar.
Borgarbyggð
Í Borgarbyggð verða fánar dregnir að húni klukkan 8:00 og eru allir íbúar hvattir til að gera slíkt hið sama í tilefni dagsins. Klukkan 10:00 hefst íþróttahátíð á Skallagrímsvelli þar sem sautjánda júní hlaup verður fyrir fólk á öllum aldri.
Klukkan 13:30 hefst skrúðgangan þar sem gengið verður frá Borganeskirkju í Skallagrímsgarð. Þar verður hátíðardagskrá frá klukkan 14:00, en klukkan 16:30 býður hestamannafélagið Borgfirðingur börnum á hestbak í Vindási.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Borgarbyggðar.
Selfoss
Dagskráin verður fjölbreytt á Selfossi á 17. júní, en hún hefst með morgunjóga klukkan 9:00 við árbakkann fyrir neðan Hótel Selfoss ef veður leyfir. Klukkan 13:15 hefst skrúðganga frá Selfosskirkju þar sem gengið verður Kirkjuveg, Eyraveg, Austurveg, Reynivelli, Engjaveg, Sigtún og inn í Sigtúnsgarð.
Í Sigtúnsgarði verður nóg um að vera, meðal annars skemmtigarður, andlitsmálun, vöfflukaffi, skemmti- og tónlistaratriði og bílasýning hjá Ferðaklúbbnum 4x4 Suðurlandsdeild.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Sveitarfélagsins Árborgar.
Hveragerði
Í Hveragerði hefst dagskrá klukkan 9:00 með Wibit þrautabraut í sundlauginni Laugaskarði sem stendur yfir allan daginn til klukkan 19:00. Klukkan 10:00 mun Hestamannafélagið Ljúfur teyma undir börnum við félagsheimili Ljúfs.
Skrúðgangan hefst svo klukkan 13:30 og gengið verður frá horninu á Heiðmörk. Í Lystigarðinum verður svo hátíðardagskrá frá klukkan 14:00 til 16:00, en þá hefjast leikir og fjör fyrir alla fjölskylduna.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Hveragerðisbæjar.
Múlaþing
Hátíðarhöld verða í öllum kjörnum sveitarfélagsins í tilefni dagsins, en á Egilstöðum verður fjölskyldustund í Egilsstaðakirkju, Skrúðganga frá kirkju í Tjarnargarð klukkan 11:00 þar sem skemmtidagskrá verður fram eftir degi.
Á Seyðisfirði hefst dagskráin klukkan 11:00 þegar blómsveigur er lagður á leiði Björns í Firði. Klukkan 12:30 verður sautjánda júní hlaup fyrir krakka 12 og yngri við Seyðisfjarðarkirkju, en hátíðardagskrá í garðinum við Seyðisfjarðarkirkju hefst klukkan 13:00.
Nánari upplýsingar um dagskrána og dagskrá í öðrum kjörnum má finna á vef Múlaþings.
Reykjanesbær
Hátíðar- og skemmtidagskrá fer fram í skrúðgarðinum í Keflavík og hefst með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju klukkan 12:00.
Að athöfn lokinni verður gengið í skrúðgarðinn þar sem fjölbreytt dagskrá verður fram eftir degi.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Reykjanesbæjar.
Ísafjörður
Á Ísafirði verður haldið upp á afmæli lýðveldisins á Eyrartúni. Klukkan 13:15 verður skrúðganga gengin frá Silfurtorgi upp á Eyrartún og þar tekur við hátíðardagskrá. Lúðrasveitin leikur fjörug lög, hátíðarræðu heldur Ólafur Guðsteinn Kristjánsson og fjallkona bæjarins ávarpar gesti.
Á Eyrartúni verða einnig hoppukastalar, andlitsmálun, karamelluregn, hestbak fyrir börn og sölutjöld á vegum körfuknattleiksdeildar Vestra.
Þá verður einnig dagskrá á Hrafnseyri, fæðingarstað sjálfs Jóns Sigurðssonar, þar sem krakkar fá tækifæri til að spreyta sig á fornleifauppgrefti undir handleiðslu fornleifafræðings. Þar verður íbúum af erlendum uppruna einnig boðið upp á leiðsögn og fræðslu um íslenska lýðveldið, Jón Sigurðsson, Hrafnseyri og fornminjar á einfaldri íslensku.
Dagskrána má sjá í heild sinni hér.
Gleðilegan þjóðarhátíðardag!