Geir Ágústsson skrifar:
Tungumál, og orðin sem því fylgja, er mikilvægt. Við notum tungumálið til að tjá okkur í ræðu og riti, miðla upplýsingum og þiggja þær, rata í gegnum daglegar athafnir, skila af okkur vinnu og leiðbeina ferðamönnum að Hallgrímskirkju. Þegar menn nota tungumálið með skýrum hætti, velja orð við hæfi og í stuttu máli vanda sig þá flæðir allt miklu betur en þegar tungumálið er óskýrt, ómarkvisst og úr takt við þekkingu áheyrandans eða lesandans.
Þetta er augljóst.
En tungumál er ekki bara farartæki fyrir hugsanir okkar, langanir og tilfinningar. Tungumál má líka nýta til að móta, hafa áhrif á og jafnvel heilaþvo. Tungumáli má breyta til að kalla fram hughrif. Merkingu orða má skilgreina upp á nýtt til að laða fólk til fylgis við boðskap eða stuðla að hatri, skautun og fordómum.
Í skáldsögu sinni 1984 talaði höfundurinn, George Orwell, um „nýmál“ (newspeak). Í því fá orð nýja merkingu. Stríð er friður, skrifaði hann eins og frægt er.
Orwell sá betur en flestir að besta leiðin til að heilaþvo almenning eða afla einhverjum vondum málstað fylgis er ekki sú að kúga, ógna, hóta, hræða, fangelsa og svelta. Nei, það væri skilvirkast að breyta tungumálinu, gefa gömlum orðum nýja merkingu og finna upp á nýjum orðum til að ná fram hughrifum.
Og yfirvöld lásu ógnvekjandi bók hans um myrka framtíð heilaþvottar og múgstjórnunar eins og leiðbeiningabækling.
Þannig var okkur sagt að nú væru komin fram „bóluefni“ til að enda heimsfaraldur, en það orð hefur í áratugi þýtt efni sem inniheldur veiklaða veiru (upprunalega frá bólusótt til að verjast bólusótt) og líkaminn getur kynnt sér án þess að veiran nái á honum tökum. Ekki var um nein slík bóluefni að ræða.
Okkur er sagt að hið opinbera hafi nú keypt „kynjuð skuldabréf“ eða „sjálfbær skuldabréf“ sem eru bara aðrar leiðir til að segja að ríkisvaldið sé að steypa sér í frekari skuldir, en í meiri mæli að eyrnamerkja þær ákveðinni eyðslu. Þessu má líkja við að á heimili sé sótt um nýtt kreditkort fyrir hverja sólarlandaferð, „sólræn skuldabréf“ á tungutaki hins opinbera.
Við fáum þau varnaðarorð frá yfirvöldum og stórum fréttamiðlum að mikil upplýsingaóreiða sé á ferðinni, samsæriskenningar vaði uppi og jafnvel að upplýsingar sem eru sannar séu samt skaðlegar okkur, svokallaðar meinupplýsingar í nýju orðabókinni. Allt eru þetta þunnar umbúðir utan um mun þekktara orð, ritskoðun, sem yfirvöld hafa sívaxandi áhuga á.
Gleymum því svo ekki að ef menn styðja ekki rétta stríðið og réttu sterana fyrir ung börn, telji að Íslandi séu takmörk sett þegar kemur að móttöku nýrra þiggjenda í velferðarkerfinu, telji að aðför íslenskra yfirvalda að hagkerfinu og sálarlífi almennings í nafni veiruvarna hafi verið vond hugmynd, og hafi áhuga á að áfram verði til bændur til að framleiða mat að þá eru menn orðnir rasistar, fasistar og hægri-öfgamenn sem þarf að taka á.
Hvað er til ráða þegar er búið að vopnavæða tungumálið okkar með þessum hætti? Fyrsta skrefið er að sjá í gegnum þokuna sem sífellt er dælt yfir okkur. Næsta skref er að hafna þessum tilraunum. Sú þriðja er að tala skýrt og nota orð rétt. Þannig og bara þannig verður spádómum George Orwell hrundið, stríð verður aftur stríð og friður verður aftur friður.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 26.6.2024
One Comment on “Orð sem miðill, orð sem blekking”
Það skelfilega við þessar pælingar er hvað það er mikill sannleikur i þeim.