Dekur Sjálfstæðisflokksins við ólöglega hælisleitendur

frettinInnlent, Jón Magnússon, PistlarLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Einar Hálfdánarson lögmaður og endurskoðandi fjallar í grein í Morgunblaðinu, um nauðsyn virkrar landamæragæslu og með hvaða hætti var komið í veg fyrir að síðasti Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði um nauðsyn þess að virk landamæragæsla yrði tekin upp. Ekki í fyrsta sinn. 

Í greininni segir Einar m.a. að ekkert hefði orðið Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptara en dekur við ólöglega innflytjendur.  Undir þetta tekur Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra í bloggfærslu og bendir á leiðir til úrbóta. 

Á Landsfundi 2015 lagði ég ásamt nokkrum öðrum fram tillögu um málefni hælisleitenda, þar sem vikið var að því að fámenn þjóð yrði að gæta vandlega hagsmuna sinna og setja mjög ákveðnar reglur um heimildir hælisleitenda til að koma til landsins.

Forusta Sjálfstæðisflokksins var tillögunni mjög andsnúinn og braut allar grunnreglur fundarskapa til að koma í veg fyrir að hún fengist tekin á dagskrá fyrr en liðið var að lokum Landsfundar að kvöldi síðasta þingdags og meiri hluti Landsfundarfulltrúa farinn heim til sín. Einnig var komið í veg fyrir eðlilegar lýðræðislegar umræður um tillöguna. Hún var felld eftir algjört ofbeldi af hálfu forustu og fundarstjóra auk nokkurra óvita með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í broddi fylkingar þá nýkjörna sem ritara Flokksins. 

Ömurleikasaga Sjálfstæðisflokksins í málefnum hælisleitenda fór síðan í nýjar hæðir í meðförum þáverandi varaformanns flokksins Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem dómsmálaráðherra, sem skipaði þverpólitíska nefnd til að unga út vitlausustu löggjöf um málefni útlendinga sem þekkist í Evrópu. 

Síðan hafa landamæri Íslands verið nánast galopin og kostnaður við ólöglega hælisleitendur nemur tugum milljarða króna árlega. Þetta var ekkert sem fólkið í landinu bað um hvað þá stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins.  Þess vegna uppsker flokkurinn nú eins og hann sáði og sér nú fylgi sitt komið langt niður fyrir helming þess sem áður var.

Sjálfstæðisflokkurinn skuldar þjóðinni miklu meira í þessum málum en nokkrar vitlegar lagfæringar á Útlendingalögunum, sem núverandi dómsmálaráðherra má eiga þakkir skildar fyrir að koma í gegn fyrir nokkrum dögum. Flokkurinn þarf að hætta því dekri við hælisleitendur sem þeir Einar Hálfdánarson og Björn Bjarnason telja að hafi orðið Sjálfstæðisflokknum hvað dýrkeyptast af öllu því sem illa hefur farið á vegferð Flokksins síðustu ár og skal undir það tekið með þeim.

Ekki er hægt að setja fram minni eða varfærnari kröfur í dag en að þegar í stað verði tekin upp virk landamæravarsla. 

Skildu eftir skilaboð