Sigríður Dögg er brotleg, ekki Hjálmar

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands flæmdi Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra félagsins úr starfi í byrjun árs. Sigríður Dögg varð uppvís að skattalagabroti, stakk undan leigutekjum, sennilega um 100 milljónir króna. Sigríður Dögg keypti lögfræðiálit sem sagði Hjálmar hafa misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri og tekið sér fyrirframgreidd laun.

Hér er ólíku saman að jafna. Keypt lögfræðiálit er aðeins almannatengslaþjónusta og ber að líta á ávirðingar í garð Hjálmars í því ljósi. Sigríður Dögg var staðin að skattalagbroti, hún viðurkenndi og hlaut viðurlög. En hún neitar að gera hreint fyrir sínum dyrum og útskýra eðli og umfang skattsvikanna.

Glæpur Hjálmars var að segja ótækt að formaður stéttafélags blaðamanna sé skattsvikari. RÚV, þar sem Sigríður Dögg starfaði, var sama sinnis og Hjálmar. Sigríði Dögg var gert að taka pokann sinn á fréttastofu RÚV. Hún varð að finna sér annað launað starf og settist í stól framkvæmdastjóra eftir að Hjálmar var hrakinn á brott. Blaðamannafélag Íslands er látið borga, bæði laun skattsvikarans og falskar ásakanir lögmannsstofu í garð fyrrum framkvæmdastjóra.

Harðsnúinn hópur blaðamanna, kenndur við RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn, nú Heimildin), styður Sigríði Dögg. Fimm blaðamenn RSK-miðla eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Formaður Blaðamannafélags Íslands telur sjálfsagt að sakborningar í refsimáli komist upp með að gera ekki grein fyrir aðkomu sinni og teljist samt heiðarlegir blaðamenn. Sakborningarnir og fjölmiðlar þeirra endurgjalda greiðann og láta Sigríði Dögg komast upp með að segja skattsvik sín einkamál. Síðan hvenær urðu skattsvik einkamál í íslenskum fjölmiðlum?

Þorri félagsmanna BÍ lætur sér vel líka að forysta stéttarfélagsins sé í höndum fólks með óhreint mjöl í pokahorninu. Sumum eru þó ofboðið. Fríða Björnsdóttir, blaðamaður númer 1 samkvæmt félagaskrá BÍ, hóf störf í faginu fyrir rúmum sextíu árum og var framkvæmdastjóri BÍ í 20 ár áður en Hjálmar tók við um aldamótin. Fríða skrifar færslu á Facebook og hvetur Sigríði Dögg að ,,taka ábyrgð og loks svara fyrir sín mál því orka og athygli á að beinast að því að efla veg blaðamennsku á Íslandi, félagsmönnum og faginu til heilla."

Á meðan Blaðamannafélag Íslands er í höndum skattsvikara og sakborninga er blaðamennska hér á landi merkt óheilindum og tvöföldu siðgæði. Blaðamennskuna setur niður, tiltrú og traust almennings hverfur. Blaðamenn þykjast fulltrúar almannahagsmuna. Teljast skattsvik og yfirhylming glæpa þjónusta við almannahag?

Skildu eftir skilaboð