Frestur er á illu bestur

frettinInnlent, Jón Magnússon, Skólakerfið, StjórnmálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur frestað kynningu á aðgerðaráætlun þar sem á að bregðast við slökum niðurstöðum íslenskra grunnskólanema í Pisa könnunum. Sjálfsagt  vegna þess að aðgerðaráætlunin er ekki til. 

Slakur árangur íslenskra grunnskólanemenda í Pisa könnunum er ekki nýr af nálinni. Alla öldina eða tæplega í aldarfjórðung hefur sigið hratt á ógæfuhliðina. Ekki hefur verið brugðist við. Helstefna fáránleikans í skólakerfinu, sem gengur undir heitinu skóli án aðgreiningar leikur lausum hala öllum til tjóns. Yfirstjórn skólamála er í afneitun gagnvart þeim raunverulega vanda sem við er að glíma. 

Að óbreyttri skólastefnu fá nemendur sem hafa hæfi ekki viðunandi tækifæri til að ölast eðlilega fræðslu í íslenskum grunnskólum. 

Allt þetta hefur verið ljóst frá fyrstu árum þessarar aldar, en ekki hefur verið brugðist við. Jón Pétur Ziemsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla segir að nú sé svo komið að helmingur drengja og þriðjungur stúlkna sem útskrifast úr grunnskóla skilji ekki mælt mál nema það allra einfaldasta. 

Fyrst árangurinn af skólastefnu Ásmundar Einars og skólaelítunnar er með þeim hætti að nemendur skilja ekki mælt mál við útskrift og standa sig hraklega í lestri, hvað kunna  þá í stærðfræði, landafræði og sögu? 

Þrátt fyrir að vandamálið hafi verið þekkt í tvo áratugi og farið versnandi ár frá ári, þá er ekki brugðist við og ráðherrar menntamála síðustu tvo áratugi bera allir ábyrgð á hvernig komið er. 

En frestsmálaráðherrann Ásmundur Daði ber mesta ábyrgð fyrir að vera ekki búinn að taka í taumana og gera grundvallarbreytingar á skólakerfinu. Hvaða vit er í því að fólk sem hefur ólíka getu, þekkingu og færni skuli sitja í sama bekki og tali jafnvel ólík tungumál tvo til þrjú? 

Allt er þetta undir vígorði ráðandi skólaspeki um að fólki eigi að líða vel í skólanum. Vissulega er gott að svo sé. En skólar eru fyrst og fremst til að kenna fólki og uppfræða. Það er margreynt að það gengur ekki í skóla án aðgreiningar. 

Nú 25 árum eftir að vandamálið var þekkt tilkynnir Ásmundur ráðherra að fresta verði kynningu á "aðgerðaráætlun" í skólamálum. Hversu lengi getum við verið með ráðherra og ríkisstjórn þar sem ráðherrar hafa ekki burði til að takast á við æpandi vandamál sem heyrir undir þá. 

Er þá ekki best að aðrir sem geta, nenna og kunna taki við?

Skildu eftir skilaboð