Afneitunarstefnan og flugvöllurinn

frettinBjörn Bjarnason, Flugsamgöngur, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Dagur B. og félagar bregðast við þessum orðum forstjóra Icelandair. Það er eitur í þeirra beinum að tekið sé af skarið og talað tæpitungulaust.

Afneitun er orð sem lýsir vel stjórnarháttum í Reykjavíkurborg undir forystu Dags B. Eggertssonar. Nýjasta dæmið um árangur þeirra stjórnarhátta má sjá í frétt sem birtist á ruv.is að kvöldi föstudagsins 12. júlí 2024 um að Icelandair hafi afskrifað hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni í stað Reykjavíkurflugvallar.

Í fréttinni er rifjað upp að árið 2019 hafi Icelandair talið vert að skoða Hvassahraun fyrir mögulegan nýjan innanlands- og millilandaflugvöll. Þetta hafi verið gert á ítarlegan hátt en félagið hafi „nú afskrifað Hvassahraun sem flugvallarkost næstu áratugina“.

Frá Reykjavíkurflugvelli.

Borgarstjórn Reykjavíkur greiddi 6. febrúar 2024 atkvæði um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fallið skyldi frá öllum fyrirætlunum um að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun og samhliða yrði fallið frá frekari fjárframlögum borgarinnar til rannsókna á Hvassahrauni sem flugvallarstæði.

Samþykkt var með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks að vísa tillögunni frá. Síðan hefur engin opinber breyting orðið á afstöðu meirihlutans sem stendur til dæmis enn gegn því að flugöryggi verði aukið á Reykjavíkurflugvelli með grisjun skóglendis í aðflugsleið yfir Öskjuhlíð.

Rökin gegn því að til þeirra öryggisaðgerða verði gripið eru álíka hallærisleg og annað sem meirihlutinn hefur kynnt á undanförnum árum í von um að með aðför að öryggi á flugvellinum takist honum að fæla flugrekendur þaðan.

Nú segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á ruv.is:

„Við erum með fjóra alþjóðaflugvelli á Íslandi í dag sem eru bara fínir en skynsamlegt er að styrkja þá enn frekar. Til dæmis flugvöllinn hér í Vatnsmýrinni, það þarf að gera hann enn betri, bæði fyrir farþega og starfsmenn og styrkja hann enn frekar sem varaflugvöll.“

Bogi Nils telur óvissu um framtíð Reykjavíkurflugvallar minnka og honum finnst kominn „meiri samhljómur hjá stjórnvöldum um að völlurinn sé kominn til að vera og [verði] þarna næstu áratugina.“

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Dagur B. og félagar bregðast við þessum orðum forstjóra Icelandair. Það er eitur í þeirra beinum að tekið sé af skarið og talað tæpitungulaust. Meirihlutanum líður best á gráu svæði þar sem teygja má allt og toga en þó fyrst og síðast tefja.

Tafirnar við samgönguframkvæmdir í Reykjavík ráðast af afneitunarstefnu meirihluta borgarstjórnar. Hann neitar að horfast í augu við frumkvæðis- og skipulagsskyldur sínar. Þess er beðið að einhver annar taki af skarið svo tækifæri gefist til að deila um það í stað þess að bjóða ákveðinn kost og standa að framkvæmd hans.

Borgarlínan er draumaverkefni meirihlutans í Reykjavík því að hún er eins og Reykjavíkurflugvöllur og Sundabraut, endalaust er unnt að finna eitthvað til að hindra að tekið sé af skarið en samt látið eins og unnið sé baki brotnu að skynsamlegri lausn. Afneitunarstefnan leiðir hins vegar aldrei til neinnar lausnar því að hún snýst um að allt sé öðrum að kenna en þeim sem ábyrgðina bera.

Skildu eftir skilaboð