Björn Bjarnason skrifar:
Dóra Björt snýr málinu á hvolf með orðum sínum. Telji Reykjavíkurborg að aðgerðarleysi sitt ógni ekki flugöryggi ber henni að færa rök fyrir því.
Furðulegt er að fylgjast með viðbrögðum píratans Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, formanns umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, þegar hún stendur frammi fyrir því að sagt hefur verið opinberlega frá bréfi sem Samgöngustofa sendi Reykjavíkurborg, dags. 27. maí 2024, um skyldu borgaryfirvalda til að fjarlægja trjágróður í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Sagði í bréfinu að hefði borgin ekki samvinnu við ISAVIA innanlandsflugvalla (ISI) fyrir 2. september 2024 um að tryggja flugöryggi um Reykjavíkurflugvöll myndi Samgöngustofa beita lögbundnum valdheimildum og „fara í nauðsynlegar aðgerðir til þess að fjarlægja þær hindranir sem eru í Öskjuhlíð, á kostnað Reykjavíkurborgar“.
Í þessu felst að eftir 2. september missir Reykjavíkurborg forræði þessa máls, aðhafist hún ekkert, og Samgöngustofa stendur fyrir grisjun í þágu flugöryggis á kostnað borgarinnar.
Bréfið var ekki lagt fram á neinum vettvangi innan borgarkerfisins þar sem fulltrúar minnihlutans gátu kynnt sér efni þess. Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, varð að ganga eftir því sérstaklega að fá það til skoðunar. Engar ákvarðanir vegna bréfsins er hins vegar unnt að taka án vitundar minnihlutans þar sem í sveitarstjórnum gildir reglan um fjölskipað stjórnvald og þar með hindrunarlausa dreifingu á upplýsingum eins og þeim sem er að finna í þessu bréfi, þar sem borgarstjórn eru settir kostir.
Brotalömina í stjórnsýslunni skýrir Dóra Björt á þann sérkennilega hátt að bréfið hafi hvorki verið stílað á umhverfis- og skipulagsráð né borgarráð. Erindi sem stíluð eru á Reykjavíkurborg á sem sagt ekki að sýna þeim sem skipa borgarstjórn. Hvenær var þessi stjórnsýslu- eða póstdreifingarregla mótuð? Hver annast framkvæmd hennar? Dóra Björt reynir aðeins að slá ryki í augu viðmælenda sinna með þessari fráleitu afsökun.
Afsökunin tengist málefnalegri afstöðu píratans sem er sú að Samgöngustofa taki einhliða afstöðu með ISI í stað þess að leggja sjálfstætt mat á málið. Dóra Björt sakar Samgöngustofu um að „meta og vigta málið“ ekki „út frá heildarhagsmunum“ eins og hún sagði við mbl.is í gær (22. júlí).
Samgöngustofu ber að sjá til þess að flugöryggis sé gætt. Hún telur að Reykjavíkurborg láti undir höfuð leggjast að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þágu þess öryggis. Dóra Björt snýr málinu á hvolf með orðum sínum. Telji Reykjavíkurborg að aðgerðarleysi sitt ógni ekki flugöryggi ber henni að færa rök fyrir því en ekki stunda áfram skemmdarstarfsemi gegn flugvellinum.
Sé einhver hlutdrægur í þessu máli er það meirihluti borgarstjórnar en svo virðist sem Dóra Björt og Alexandra Briem, borgarfulltrúar Pírata, stjórni nú ferðinni í þessu máli og hafi ætlað að leiða það í ógöngur með því að leyna bréfi Samgöngustofu og skella síðan skuldinni á hana eftir 2. september.
Ástæða er til að ætla að Dóra Björt fari með rangt mál þegar hún segir „stanslaust samtal í gangi“ milli aðila um þessa hlið flugöryggismálanna. Telji Reykjavíkurborg flugöryggi tryggt þrátt fyrir ábendingar ISI og ákvörðun Samgöngustofu ber henni skylda til að sanna það með rökum en ekki útúrsnúningi og rangfærslum.