Björn Bjarnason skrifar:
Enrico Letta sagði EES-löndin Noreg og Ísland vera bestu sendiherra EES-samningsins gagnvart þriðju ríkjum þegar litið væri til kynningar á gildi aðildar að innri markaðnum.
Í gær (3. sept) efndu utanríkisráðuneytið og Alþjóðamálastofnun HÍ til hádegisfundar í Safnahúsinu við Hverfisgötu um stöðu og horfur EES og innri markaðarins.
Frummælendur á fundinum voru Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfundur nýlegrar skýrslu um framtíð innri markaðarins, og Line Eldring, formaður EES-nefndar norskra stjórnvalda sem skilaði nýlega af sér skýrslu um þróun og reynslu Noregs af EES-samstarfinu síðustu ár.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra setti fundinn. Að loknum erindum voru pallborðsumræður þar sem við Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI og formaður ráðgjafanefndar EFTA, settumst með frummælendum. Inngangsorð mín má sjá hér.
Letta hefur ferðast um ríki ESB, til Noregs og hingað til að kynna efni skýrslu frá því í apríl 2024 sem ber heitið Much more than a market á ensku og snýst um innri markaðinn í Evrópu (e. the single market) sem varð til um miðjan níunda áratuginn og varð að EES-markaðnum fyrir 30 árum með aðild EFTA-ríkjanna Íslands, Liechtensteins og Noregs að honum.
Í ræðu sinni minnti Letta á að innri markaðurinn næði ekki til þriggja sviða sem síðan hefðu mun meira vægi nú en þegar hann var gerður: fjármála, orku og fjarskipta. Til að Evrópuríki glötuðu ekki samkeppnisstyrk sínum yrðu þau að sameina krafta sína á þessum sviðum.
Line Eldring rakti efni skýrslu nefndar sem hún stýrði um Noreg og EES-samstarfið. (Ég skrifaði kafla um Ísland sem viðauka við skýrsluna, sjá hér .) Í Noregi eru skarpar línur milli andstæðinga ESB og ESB-aðildarsinna, mun skarpari en hér á landi. Lýsti hún EES-samningnum sem eins konar hlutlausu belti á milli þessara fylkinga. Þær væru sammála um að halda sig á því svæði í stað þess að sundra þjóðinni enn á ný með aðildartillögu – hún væri eini raunhæfi kosturinn höfnuðu menn EES.
Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sat í pallborði í Ósló 2. september þegar Letta kynnti skýrslu sína þar. Ráðherrann óttast ekki að EES-samningurinn renni út á tíma. „Sé til samningur sem hefur sýnt að hann úreldist ekki, þá er það EES-samningurinn,“ segir forsætisráðherrann á vefsíðunni Altinget.no.
Enrico Letta sagði EES-löndin Noreg og Ísland vera bestu sendiherra EES-samningsins gagnvart þriðju ríkjum þegar litið væri til kynningar á gildi aðildar að innri markaðnum.
Í pallborðsumræðunum í Safnahúsinu lýsti Letta skaðsemi Brexit, ekki aðeins fyrir Breta heldur öll aðildarríki innri markaðarins. Af þeirri dýrkeyptu reynslu yrði að læra og ekki mætti sýna þvermóðsku í samskiptum ríkja í Evrópu um markaðsmál á tímum þegar mestu skipti að tryggja efnahagslegt öryggi Evrópu í heimi sem hefði gjörbreyst frá því innri markaðurinn og síðan EES kom til sögunnar.