Heimsskipan, sem sögð er í hættu í viðtengdri frétt, er annað orð yfir vestrænt forræði heimsmála. Síðast þegar samið var um heimsskipan var við lok seinna stríðs. Helstu sigurvegar, Bandaríkin og Sovétríkin, skiptu með sér Evrópu, í austur og vestur. Ólík hugmyndakerfi, sósíalismi/kommúnismi annars vegar og hins vegar borgaralegt lýðræði/kapítalismi, mynduðu valdajafnvægi í skugga kjarnorkuvopna.
Eftir fall Berlínarmúrsins 1989 og endalok kommúnisma sem heimshugmyndafræði var vestrið eitt eftir í einpóla heimi. Ríkjandi sjónarmið var að heimurinn yrði vestrænn, sbr. fræga bók Francis Fukuyama, Endalok sögunnar. Valdajafnvægi var ekki lengur pólitískt hugtak sem miðlaði málum. Vestrænt forræði kom í staðinn.
Heimurinn, utan vesturlanda, var ekki sammála. Afganistan, Írak og Sýrland eru ekki stórveldi, jafnvel þótt þau séu lögð saman. Tilraunir til að gera þau vestræn með illu, hernaði, mistókust.
Svo er það Rússland. „Rússland er bensínstöð sem þykist þjóðríki," sagði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain fyrir tíu árum. Sama ár, 2014, sagði þáverandi Bandaríkjaforseti, Obama, að Rússland væri miðlungsríki með staðbundin áhrif.
Orð þingmannsins og forsetans féllu í upphafi Úkraínudeilunnar, sem varð ekki að fullveðja stríði fyrr en í febrúar 2022.
Í átta ár, 2014-2022, var hægt að semja um stöðu austurhéraða Úkraínu, þar sem íbúarnir eru flestir rússneskumælandi. Samningar voru gerðir, Minsk I og II, en af hálfu Úkraínu og vestrænna bakhjarla stóð aldrei til að efna þá. Til hvers að halda samninga við bensínstöð sem þykist þjóðríki?
Vestrið sigraði kalda stríðið. Fall Berlínarmúrsins var áþreifanleg staðfesting á efnahagslegu og pólitísku gjaldþroti kommúnisma. Úrvinnslan á þeim sigri fór í hundana. Orð yfirmanna leyniþjónustu Bandaríkjanna og Bretlands í viðtengdri frétt staðfesta það. Sjálf heimsskipanin er í hættu vegna Úkraínustríðsins.
Úkraínustríðið er í grunninn deila bræðraþjóða, staðbundið vandamál sem ætti ekki að valda alþjóðlegum úlfaþyt, að ekki sé talað um hættu á heimsstríði.
Í vestrinu er látið eins og Pútín forseti Rússlands hafi í frammi boðskap sem heiminum standi ógn af, líkt og fyrrum er kommúnistar réðu ferðinni í Kreml. En Pútín stundar ekki útflutning á hugmyndafræði. Pútín aðhyllist rússneska þjóðhyggju. Til skamms tíma var ekki glæpur á vesturlöndum að stjórnmálamaður léti sér annt um þjóð sína.
Vestrið situr aftur uppi með alþjóðahyggju, eitt vestrænt sniðmát fyrir heimsbyggðina. Virkaði ekki í Afganistan, Írak eða Sýrlandi. Selur heldur ekki í Rússlandi. Pútín nýtur meiri stuðnings þjóðar sinnar en dæmi eru um að vestrænir stjórnmálamenn njóti í sínum heimalöndum.
Úkraínustríðinu lýkur, líkt og öllum stríðum, með friði. Heimsskipanin breytist að því leyti að hugmyndafræðin um vestrænt forræði í heimsmálum verður endurskoðuð. Margpóla heimur leysir af hólmi einpóla heim.