Páll Vilhjálmsson skrifar:
Vinstrimenn sérhæfa sig í reiðibylgjum á fjöl- og samfélagsmiðlum. Þegar vel tekst til sópar reiðibylgjan málefnalegum rökum út af borðinu. Eftir stendur sigri hrósandi vók-liðið. Vinstrinu er tekið að förlast í fréttahönnun og reiðibylgjum, sé tekið mið af afdrifum andófs Róberts Spanó lögmanns og Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara gegn Guðrún dómsmálaráðherra.
Guðrún ráðherra dómsmála tilkynnti síðdegis 9. september að hún yrði ekki við beiðni Sigríðar ríkissaksóknara að veita Helga Magnúsi vararíkissaksóknara lausn frá störfum. Sema Erla Sólaris innflytjandi hælisleitenda hafði krafist að Helgi Magnús yrði beittur viðurlögum fyrir að gagnrýna innflutning ofbeldismanna. Sigríður ríkissaksóknari gerði málstað Semu Erlu að sínum.
Þrem dögum eftir úrskurð Guðrúnar ráðherra birti lögmaðurinn Róbert Spanó, innmúraður vinstrimaður, harða gagnrýni á ráðherra. Spanó sérhæfir sig í að ganga á milli bols og höfuðs á kvenkyns dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins og í leiðinni grafa undan tiltrú almennings á réttarríkið.
Grein Spanó var upphafsskotið. Nú var ræs, allir vinstrimenn upp á dekk til gera óskunda í umræðunni. Sigríður ríkissaksóknari fylgdi eftir og úthlutaði skotfærum á Vísi og RÚV. Deila, dreifa og fordæma voru skilaboðin. Látið rísa stafræna hamfarabylgju.
Sígilt skipulag á upphlaupi sem skyldi sauma að Guðrún. Samspil Spanó og Sigríðar gekk út á að aðrir kæmu í kjölfarið, álitsgjafar og stjórnmálamenn. RÚV flytti raðfréttir, neikvæðar í garð Guðrúnar ráðherra, og eftir nokkra daga fár myndi einhver krefjast afsagnar hennar, - sem einnig yrði frétt.
En vók-bylgjan gegn Guðrúnu ráðherra fjaraði snöggt út, varð aldrei meira en Spanó-gárur og Sigríðar.
Hvers vegna fataðist elítu-vókinu flugið í stafrænni atlögu að Guðrúnu ráðherra?
Svarið er tvíþætt. Í fyrsta lagi málsstaðurinn og í öðru lagi veik staða RÚV.
Byrjum á málstaðnum. Innflutningur hælisleitenda til Íslands vekur vaxandi tortryggni. Jafnvel ráðherra Vinstri grænna spyr hvort útlendingar séu orðnir of margir. Af útlendingum eru hælisleitendur síst líklegir til að aðlagast íslensku samfélagi. Hælisleitendur eru sennilegri en aðrir erlendir að sigla undir fölsku flaggi.
Þá er það RÚV, sem er miðlægt afl í vók-bylgjum vinstrimanna. RÚV er meira og minna lamað í aðgerðafréttamennsku þessi misserin. Demóklesarsverð byrlunar- og símastuldsmálsins hangir á örþræði yfir Efstaleiti. Yfirmenn RÚV, einkum Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri, eru með lífið í lúkunum að frekari upplýsingar komi fram sem tengi byrlun og símastuld við ríkisfjölmiðilinn. Þeir vita sem er að á hverri stundum gæti brostið á fár þar sem aðild RÚV að alvarlegum afbrotum er miðja stormsins. Staða RÚV er veik, sjálfstraustið er í lágmarki. Stofnunin undirbýr að berjast fyrir lífi sínu. Virk aðild að vók-bylgju Spanó og Sigríðar væri of áhættusöm við ríkjandi kringumstæður.
Skötuhjúin Spanó og Sigríður eru í vanda, Sigríður þó sýnum meiri. Spanó getur látið sig hverfa í lögmennsku og akademíu. Sigríður reiddi hátt til höggs er hún spann dómsmálaráðherra pólitískt tilræði. Höggið geigaði, spuninn reyndist hálmstrá. Veturinn verður langur Sigríði ríkissaksóknara. Góðu heilli situr í embætti vararíkissaksóknara maður með trausta dómgreind.