Páll Vilhjálmsson skrifar:
Frjáls umræða er einkenni lýðræðisríkja. Umræða er forsenda málamiðlana sem þarf í samfélagi er kýs frið fremur en ófrið, stöðugleika í stað óreiðu, jafnræði umfram yfirgang.
Í lýðræðisríki fer lögreglan ekki með dagskrárvald opinberrar umræðu. Lögreglan hefur ríkari valdheimildir en aðrar stofnanir og eru þær til að verja öryggi borgaranna, eigur þeirra og allsherjarreglu. Þá rannsakar lögreglan afbrot og kemur í veg fyrir ólögmæta starfsemi.
Fyrir tíu árum var í gildi grein í hegningarlögum:
Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.
Lagagreinin var afnumin árið 2015 með frumvarpi þriggja þingmanna Pírata. Þeir sögðu m.a. í greinargerð:
Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar.
Náskyld lagagrein er enn í gildi, 233. gr. a. hegningarlaga. Upphaf og niðurlag er svohljóðandi:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu [...] skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2. árum.
Samtökin 78 kærðu til lögreglu tilfallandi fyrir brot á lagagreininni. Í framhaldi ákærði lögreglan, eins og greint var frá í bloggi gærdagsins.
Glöggir lesendur taka eftir að lagagreinin bannar háð, róg, smánun og ógn gagnvart ,,manni eða hópi manna." Tilfallandi talaði hvorki um mann né hóp manna í texta sem ákært er fyrir heldur Samtökin 78.
Lögreglan í Reykjavík, í umboði ríkissaksóknara, segir gagnrýni á félagasamtök jafngilda að eitthvað misjafnt sé sagt um aðildarfélaga samtakanna. Það er rökvilla. Félagasamtök eru sjálfstæður lögaðili, einstaklingarnir sem eiga aðild eru annað. Kannski að saksóknari lögreglu líti á Samtökin 78 sem trúfélag. Trúarkenningar um að hægt sé að fæðast í röngum líkama eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Lagagreinin sem bannaði guðlast var afnumin fyrir bráðum tíu árum.
Lögregla og ákæruvald ættu að láta borgarana um frjálsa orðræðu. Lögreglu er ætlað að verja lýðræðið, ekki kæfa það með þöggun.