Páll Vilhjálmsson skrifar:
Vísir rifjar upp að Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra kallaði Donald Trump ,,fordómafullan fábjána." Afsökun ráðherra er að ummælin eru níu ára gömul. En það er aðeins eitt ár síðan að Þórdís Kolbrún hóf einkastríð gegn Rússlandi. Hún lokaði sendiráði Íslands í Moskvu með vísun í Úkraínustríðið. Ekkert annað ríki gerði neitt sambærilegt.
RT-fréttastofan rússneska fjallaði ítarlega um hvernig Þórdís Kolbrún stóð að lokun sendiráðsins fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Að leggja niður sendiráð er eitt, stundum eru þau óþörf. En að loka sendiráði Íslands í höfuðborg Rússlands með vísun í Úkraínustríðið er stórpólitískt mál. Tilfallandi bloggaði sumarið þegar pólitískur óviti í nafni Íslendinga skellti hurðum í Moskvu:
Hvers vegna ætti Ísland að ögra Rússlandi? Samskipti þjóðanna hafa ávallt verið vinsamleg. Rússar opnuðu markaði sína á sovéttímanum þegar við áttum í landhelgisdeilu Breta, sem beittu okkur viðskiptaþvingunum.
Jú, kynni einhver að segja, Rússar réðust inn í Úkraínu. Síðan hvenær eru stríð í útlöndum rök fyrir lokun íslenskra sendiráða? Bræðraþjóðir í austurvegi þjarka um landamæri, öryggishagsmuni og réttindi þjóðarbrota. Það er leitt, eins og öll átök, ekki síst þau er kosta mannslíf, en koma Íslendingum ekkert sérstaklega við.
Einkastríð Þórdísar Kolbrúnar er pólitísk dygðaflöggun til heimabrúks.
Þriðja atriðið sem sýnir Þórdísi Kolbrúnu sem pólitískan óvita er að síðustu vikurnar fyrir stjórnarslit notaði hún til að þvinga í gegnum alþingi stórfellt valdaframsal frá Íslandi til ESB, bókun 35.
Pólitíski óvitinn flutti sig um kjördæmi fyrir þessar kosningar, fór úr NV-kjördæmi í SV-kjördæmi. Þórdís Kolbrún ætlar sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins að taka við formennsku af Bjarna Ben.
Þórdís Kolbrún talar, og hagar sér, eins og pólitískur aktívisti djúpt sokkinn í vælumenningu vóksins. Hún er ekki borgaralegur stjórnmálamaður frekar en Gunnar Smári.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur höllum fæti, að ósekju að mati tilfallandi, sem er kjósandi í SV-kjördæmi, og hefur einatt og iðulega varið Sjálfstæðisflokkinn ómaklegri gagnrýni. Framboðslista með Þórdísi Kolbrúnu er aftur ekki hægt að kjósa.