Geir Ágústsson skrifar:
Sameining sveitarfélaga átti að ná svo mörgum markmiðum.
Stærri sveitarfélög með meira á milli handanna áttu að geta veitt góða þjónustu og farið í nauðsynlegar framkvæmdir.
Samlegðaráhrif áttu að losa um mikla fjármuni.
Lögbundnum skylduverkum átti að sinna betur.
Allt þetta án þess að tengslin milli sveitastjórnarmanna og kjósenda rofni vegna fjölmennis og víðfeðmi.
Raunin er almennt séð önnur.
Sveitarfélög sem hafa haldið sjálfstæði sínu standa sig almennt betur en hin. Þrýstingurinn á að moka öllu höfuðborgarsvæðinu í ráðhús Reykjavíkur hefur sem betur fer ekki borið árangur. Skattgreiðendur utan Reykjavíkur sjá það á veskinu og þjónustunni.
Sveitarfélög með marga útvarsgreiðendur eiga auðveldar með að sökkva sér í skuldir - slá lán út á skatttekjur framtíðar.
Innan stærri sveitarfélaga eru svæði sem finnst þau vera afskipt og fá enga rödd í ákvarðanatöku.
En það er ekki bara við sveitarfélögin að sakast að þau eru mörg hver í blússandi skuldasúpu eftir fjölmörg hagstæð ár og þurfi núna að taka lán til að borga yfirdráttinn. Ríkisvaldið hefur séð tækifæri í sístækkandi sveitarfélögum og mokar á þau allskyns nútímalegum kröfum og skyldum. Sum sveitarfélög hafa svo bætt í með eigin gæluverkefnum.
Skattgreiðandinn týndist í leiðinni, og víða einnig grunnskólanemendur, ökumenn og ungt fólk í leit að hagstæðu húsnæði.
Það er góð hugmynd að Samband íslenskra sveitarfélaga standi núna að ráðstefnu um samstarf ríkis og sveitarfélaga. Þar er allt í molum og mögulega ástæða til að endurhugsa þá vegferð sem var farið í með sameiningu sveitarfélaga og notkun ríkisins á þeim sem einskonar ruslatunnu fyrir gæluverkefni.