Páll Vilhjálmsson skrifar:
Árið 2007 tókst Þórði Snæ að svindla sig frá afleiðingum eigin gjörða. Hann skrifaði undir dulnefni ljótt um Rannveigu Rist forstjóra. Þegar það var borið upp á hann neitaði Þórður Snær að vera höfundur skrifanna.
Árið 2021 átti Þórður Snær beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og afritun. Þórður Snær neitaði, höfðaði mál gegn tilfallandi fyrir að fjalla um málið en tapaði. Afneitun Þórðar Snæs á veruleikanum 2021 gekk lengra. Hann beinlínis fullyrti að skipstjóranum hefði ekki verið byrlað. Líkt og 2007 komst Þórður Snær upp með svindlið.
Árið 2024 ætlar Þórður Snær að svindla enn á ný, víkjast undan að axla ábyrgð á eigin orðum. Fyrstu viðbrögð hans eftir Spursmálsþáttinn með Stefáni Einari, þar sem vísað var í kvenfyrirlitningartexta Þórðar Snæs, voru þau að afsaka sig með þeim orðum að svona hafi ,,menningin" verið fyrir nokkrum árum. Nú sé hann annar og betri maður.
En, nei, Þórður Snær er sami maðurinn og hann alltaf hefur verið. Hann er staðinn að svindli 2007, 2021 og 2024. Á þessu árabil gat Þórður Snær sér orð fyrir blaðamennsku sem gekk út á að ásaka og ofsækja. Á hæpnum forsendum, stundum alls engum, hafði þessi tegund blaðamennsku tekið menn niður. Iðulega höfðu blaðamenn samstarf sín á milli að velja sér skotmörk. Illræmdasta bandalagið var RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn.
Ástæðan fyrir því að svindlið tókst ekki núna er að Þórður Snær fór fram á að heill stjórnmálaflokkur ábyrgðist orð hans. Ritstjórinn fyrrverandi stóð í þeirri trú að, líkt og RSK-bandalagið, myndi Samfylkingin slá skjaldborg um óhæfuna sem hann varð uppvís að. Í 4 daga tókst Þórði Snæ að halda stuðningi Samfylkingar. Á þeim tíma kynntu flokksmenn sér sögu Þórðar Snæs og lásu fréttir um fyrri skrif þingmannsefnisins. Þeim ofbauð.
Þórður Snær útskýrði aðferðafræðina sem hann stundaði í leiðara Kjarnans árið 2017:
Tæknin sem beitt er kallast á ensku „gaslighting“, eða gaslýsing, og er þekkt pólitískt bragð. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Leiðarinn var skrifaður til að halda á lofti þeirri kenningu þáverandi ritstjóra Kjarnans að Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur barnaníði. RSK-bandalaginu var í mun að selja almenningi kenninguna. Í ljósi eldri bloggskrifa Þórðar Snæs er hann þarna að varpa eigin hvatalífi yfir á aðra. Fyrirbærið, að skrifa á aðra eigin kenndir, er þekkt í sálfræði.
Í viðtengdri frétt fjallar almannatengill um fall Þórðar Snæs. Valgeir Magnússon gerir því skóna að hefði þingmannsefnið sjálft lagt ,,beinagrindurnar" á borðið væri honum fyrirgefningin vís. Valgeir gleymir tvennu. Í fyrsta lagi að beinagrindur Þórðar Snæs hefðu fyllt líkhúsið. Í öðru lagi að Þórði Snæ er tamara að ásaka og ofsækja en að játa. Til að komast hjá játningu segir Þórður Snær ósatt, það er einfaldlega hans háttur. Gerði það 2007 og aftur 2021. Þegar hann reyndi ósannindi í síðustu viku voru ekki nógu margir til að trúa. Of margir vissu hvaða mann Þórður Snær hafði að geyma.