Jón Magnússon skrifar:
1990 beið sósíalísk ríkishugsjón algjöran ósigur fyrir markaðshagkerfinu (kapítalismanum). Þá töldu margir að blóði drifin saga ríkissósíalismans væri svo ömurleg,að dagar hans væru endanlega taldir.
Nú mælist Sósíalistaflokkur Íslands með meira fylgi en áður, en sá flokkur er holdgervingur sömu hugmyndafræði og hneppti fólkið í Sovétríkjunum og Austur Evrópu í ánauð og örbirgð áratugum saman. Fylgismenn þeirra hafa ekkert lært af sögunni eða kjósa að gleyma óþægilegum staðreyndum.
Sósíalistaflokkurinn og VG eru á sömu blaðsíðunni um að hafna ósigri ríkisstýrðrar markaðsstarfsemi, en sú skoðun felur samt ekki í sér aðalhættuna sem stafar að frjálsu dugandi fólki.
Hlutfall þjóðarframleiðslunnar sem eytt er af ríkisstjórnum í því sem kallað er hinn frjálsi heimur er langt umfram það sem hægt er að ná inn með skattlagningu án þess að eyðileggja möguleikann á að búa til vöxt og ágóða. Þess vegna verður skuldaklafinn stöðugt hærri eða það verða prentaðir fleiri innistæðulausir peningar eða sennilega hvorutveggja.
Vegna ofurvelferðarhyggju of ofurskattlagningar reynist stöðugt erfiðara fyrir ungt dugmikið vinnandi fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða önnur lífsgæði sem mín kynslóð gat, þó að það tæki vissulega í meðan á því stóð.
Það sem Vesturlönd þar á meðal við verðum að læra af ósigri kommúnismans er að líta á að hlutverk ríkisins sé að koma í veg fyrir að frelsinu sé ógnað ekki síst athafnafrelsinu og möguleikum fólksins til að byggja sér sjálft upp sína eigin framtíð á forsendum eigin óska, atorku og vilja.
Sinna verka njóti hver var á vígorð Sjálfstæðisflokksins. Til að ná fyrri styrk þarf Sjálfstæðisflokkurinn að víkja af vegi þeirrar ríkishyggju sem hafa einkennt um margt störf hans síðustu ár og heita því að standa við grunngildi Sjálfstæðisstefnunnar um að skapa þjóðfélag þar sem framsækið fólk fær að njóta sinna verka.
Sinna verka njóti hver á að vera inntakið í því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.