Páll Vilhjálmsson skrifar:
Atkvæði greitt Viðreisn er stuðningur við að Ísland gangi í Evrópusambandið, ESB. Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar mun setja ESB-aðild á dagskrá stjórnarmyndunarviðræðna eftir kosningar. Deilur smáþjóðar um utanríkismál eru svæsnar og langvinnar. Nægir þar að vísa í ófriðinn á Sturlungaöld og árin eftir seinna stríð er lá við borgarastríði um bandaríska hersetu og Nató-aðild.
Til skamms tíma var Viðreisn með um tíu prósent fylgi. Flokkurinn er sá eini á alþingi með yfirlýsta stefnu að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Enginn hefur áhyggjur af smáflokki með sérvisku. Grunnt er á sömu stefnu hjá Samfylkingunni, þótt flokkurinn segi í orði kveðnu að ESB-aðild sé ekki á dagskrá - í bili.
Í skoðanakönnunum mælast Viðreisn og Samfylking með um 20 prósent fylgi, hvor flokkur. Flokkabandalag með um 40 prósent fylgi getur haft afgerandi áhrif á þróun íslenskra stjórnmála næstu misseri og ár.
Síðast þegar reynt var að véla Ísland inn í ESB, í tíð vinstristjórnar Jóhönnu Sig. 2009-2013, logaði samfélagið í ófriði. Tvennt kom til, afleiðingar hrunsins annars vegar og hins vegar ESB-umsóknin sem vinstristjórnin sendi til Brussel sumarið 2009.
Langsótt var að Ísland yrði ESB-ríki fyrir fimmtán árum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja Evrópu. Ísland er eyríki á miðju Atlantshafi. Eftir að Bretland gekk úr ESB, með Brexit 2016, varð enn fjarlægara að Ísland ætti erindi í félagsskapinn.
Evrópusambandið er á samdráttarskeiði, ólíkt því sem var um aldamótin. Aðild Íslands komst á dagskrá þegar ESB-sniðmátið virtist ætla að sigra álfuna. Stefnt var á Stór-Evrópu, með eina stjórnarskrá, ein lög, einn gjaldmiðil og sameiginlega pólitíska framtíð. Svo er ekki lengur, fjarri því.
Úkraínustríðið, sem hófst um miðjan síðasta áratug, en varð fullveðja með innrás Rússa fyrir bráðum þrem árum, markar vatnaskil í Evrópu. Rússland verður stærsta verkefni ESB næstu ára og áratuga - óháð úrslitum Úkraínustríðsins. Ef Rússland skyldi tapa, sem er afar ólíklegt, myndi ESB glíma við vanda sem fylgir að næsti nágranni er kjarnorkuvopnaveldi í upplausn. Sigri Rússland, sem er sennilegt, er komið á þröskuld ESB stórríki, hernaðarlega og efnahagslega máttugt og með ólíka pólitíska dagskrá.
Hagsmunum Íslands er best borgið fjarri þeirri orrahríð sem fyrirsjáanleg er næstu ár og áratugi í Evrópu. Ekki eigum við aðild að átökunum og engir lífsnauðsynlegir hagsmunir Íslands eru þar í húfi.
Bandaríkin munu ekki styðja Evrópusambandið í austurvíkingi. Bandaríkin, einkum og sérstaklega undir Trump, líta ekki svo á að lífsnauðsynlegir bandarískir hagsmunir séu undir í Úkraínustríðinu. Trump-stjórnin mun leggja kapp friðarsamninga og stríðslok. Gangi það eftir skapast nýjar aðstæður í samskiptum ESB og Rússland. Verulega langur tími mun líða, mældur í áratugum, áður en nýtt jafnvægi næst á milli ESB og Rússlands. Bandaríkin líta á það sem evrópskt vandamál.
Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Vegna legu landsins á miðju Atlantshafi líta stjórnvöld í Washington á Ísland sem útvörð í austurátt. Er Evrópa verður látin finna leið til að lifa með sterku Rússlandi eykst mikilvægi Íslands í augum Bandaríkjamanna. Þetta er ekki nýleg þróun. Fyrir sex árum gerði Stephen M. Walt, í bókinni The Hell of Good Intentions (2018), skilmerkilega grein fyrir að Bandaríkin eru hvorki siðferðislega né hernaðarlega megnug að leggja línurnar í alþjóðastjórnmálum líkt og þau voru áratugina eftir seinna stríð.
Bandaríkin verða æ fráhverfari fyrri stefnu að starfa sem alþjóðlegt lögregluvald. Þau líta aftur á Ísland sem nærsvæði sitt og láta sér annt um að hér á landi séu stjórnvöld er fylgja stefnu og anda varnarsamningsins frá 1951. Ísland sem ESB-ríki yrði sjálfkrafa hluti af eljaraglettum Evrópusambandsins og Rússlands næstu áratuga. Ísland sem ESB-aðild er komið á tvöfalt áhrifasvæði. Í einn stað Bandaríkjanna en Evrópusambandsins í annan stað.
Smáríki sem verður bitbein stórveldahagsmuna fær undantekningalaust slæma útreið. Óeining innanlands er fylgifiskur. Hér á landi yrðu einhverjir hallir undir forsjá ESB á meðan aðrir kysu að Ísland yrði á bandarísku áhrifasvæði. Stórveldin, hvort í sínu lagi, kæmu sér upp innlendum leppum. Saga smáríkja sem stórveldi þjarka um er víti til varnaðar. Gefum ekki færi á okkur.
Að svo mikið sem íhuga ESB-aðild er andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd. Fullkomlega ábyrgðalaust er að styðja ævintýramennsku Viðreisnar í utanríkismálum. Í þingkosningunum eftir átta daga er Viðreisn slæmur kostur. Mjög slæmur.