Geðheilbrigðismál, lausn geðsjúklings

ThrosturAðsend grein, Þröstur JónssonLeave a Comment

Tilefni.

Á sameiginlegum fundi framboðanna á Egilsstöðum síðastliðin fimmtudag, var fyrsta spurning sem borin var upp fyrir frambjóðendur um hvað framboðin ætluðu að gera í geðheilbrigðismálum, sem hafa verið nokkuð hugleikin hér eystra að undanförnu.
Hver af öðrum tóku frambjóðendur hljóðnemann, og fóru hver með sína „lofa öllu fögru“ ræðu sem fór inn um annað eyra áheyrandans og strax út um hitt eyrað.
Vakti þó athygli mína að einn þessara ágætu frambjóðanda sem er prestur norður í landi taldi það ótækt að nánast eina geðheilbrigðisþjónustan þar væri viðtöl við sóknarprest, og smættaði þannig eigin þjónustu og enn verra, smættaði geðlækninn stóra sem hann á að vera erindreki fyrir.
Þrátt fyrir að þessi fundur hafi verið alveg drep-leiðinlegur, þá sátu eftir í mér orð klerksins mér til umhugsunar og upprifjunar á minni eigin sögu sem geðsjúklings mest af mínu lífi.
Hvernig komst ég á þann góða stað sem ég er á í dag sem „firrum geðsjúklingur“?
Skoðum það aðeins ef það mætti verða öðrum til hjálpar.

Dapurleg saga margra.

Allt frá unglingsárum og langt fram yfir fimmtugt barðist ég við svo nefnt „óyndi“  á fagmáli sem er ekkert annað en þunglyndi. Auk þess voru kvíðaköst mér mikill þrándur í götu. Ugglaust barði lífið mig þannig til sem ungling og ungann mann, saklausa sköpun Guðs að úr varð maður sem átti við þetta að stríða og brynjaði sig frá veröldinni með kaldri framkomu, hroka, hörku við sjálfan sig og aðra. Þannig gat ég verndað flosmjúkt, viðkvæmt stórt hjartað á bakvið skrápinn fyrir illsku þessa heims. Þessi skrápur bitnaði jafnt á sjálfum mér sem og öllum í umhverfi mínu.
Ég gekk á milli geðlækna, sálfræðinga og geðdeildar LSH að leita mér lausnar. Mætti alstaðar frábæru fólki sem vildi allt fyrir mig gera. Ég prófaði „allar þessar pillur“ sem var eins og a skvetta vatni á gæs.
Þrátt fyrir góðan vilja sjálfs míns og allra sem reyndu að hjálpa mér fór alltaf í sama farið. Huglæg athyglismeðferð hjálpaði þó aðeins enda byggð á stoðum ritningar Guðs.

Góði geðlæknirinn.

Árið 2015 var lífið einhvern vegin brunnið út. Ég átti allt í þessari veröld, sem mig langaði í. En þessi veraldlegu gæði gáfu mér litla hamingju og enga lækningu. Einmannaleikinn var að drepa mig.
Það var þá sem Nýja Testamentið kom einn daginn inn um bréfalúguna frá góðri konu. Það lá í nokkra daga á sófaborðinu þar til ég opnaði það og byrjaði að lesa með minn eina góða vin til fóta; hundinn minn hann Skuggasvein. Þetta varð langur lestur í nokkra daga. Þarna hófst mín ótrúlega ganga með Jesú Kristi. Mér opnaðist ný veröld; Himnaríki og mesti geðlæknir í heiminum, Guð sjálfur hóf í mér verkið, sem fólst ekki í skyndi-lækningum, heldur þjálfun í gegnum erfiðleika þar sem hann hélt styrkri hendi í mig, leiðbeindi mér hvert skref í gegnum dimma dali með ljós við endann. Þar kom „handbók framleiðandans“ að góðu gagni, Biblían sjálf.

Fulkominn bati.

Þunglyndið er farið, djörfung og kjarkur kominn í stað kvíða, vellíðan og gleði í stað bölmóðs og depurðar og það sem dýrmætast er greining Heilags Anda við allar aðstæður.
Ég held að þessu verki nú nærri 10 árum seinna hafi lokið í aðdraganda þessara kosninga. Ég hafði beðið Guð um að veita hroka og móðgunargirni rothögg í mínu lífi. Nokkrum dögum seinna hellti Guð yfir mig höfnunum og lítillækkun sem verkefni. Bardagi hófst á milli þess að brjálast út í allt og alla sem þessu ollu eða sýna auðmýkt hefja sig yfir aðstæður og koma niður í kærleika. Skemmtilegt verkefni sem ég held að ég hafi leyst ágætlega.

Er ekki komið nóg af villu vegar?

#image_title

Geðlæknirinn Guð almáttugur kostar ekki neitt. Það þarf engar fínar stofnanir, enga sérfræðinga  í hvítum sloppum, né ómælda fjármuni úr ríkissjóði. Hver sem til þessa geðlæknis leitar mun fá lausn ef hann þiggur hana.

Hvernig væri að opna dyr fyrir þessum geðlækni í samfélaginu okkar og þá ekki síst í skólakerfinu okkar þar sem ungmenni glíma við áþekkar brotalamir og sá er þetta ritar glímdi við á þeirra aldri?
Væri það ekki líklegra til árangurs en innantómt hjal um meiri fjármuni, greiningar og nærþjónustu?
Er ekki komið nóg af vegleysum gervi-fræða og skurðgoða í þessum efnum?

Skildu eftir skilaboð