Verðsamanburðarvefsíðan Verðgáttin hefur verið óvirk í nokkurn tíma, en henni var ætlað að auðvelda neytendum á Íslandi að bera saman vöruverð hjá Bónus, Krónunni og Nettó. Síðan er á vegum Rannsóknarseturs verslunarinnar og íslenskra stjórnvalda í samstarfi við þær verslanir sem tóku þátt í verkefninu.
Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, sagði við RÚV um síðuna þegar hún opnaði að gáttin ætti að veita verslununum aðhald, og ætti að vera liður í verkefni ríkisstjórnarinnar við að draga úr verðbólgu - og að verslanirnar taki þátt í því.
Síðan er óvirk í dag eins og áður segir en Magnús greindi frá því við Mannlíf að hann væri hættur sem forstöðumaður Rannsóknarsetursins. Magnús er þó enn þá skráður sem slíkur á heimasíðu Rannsóknarseturs verslunarinnar og á eigin Linkdin síðu.
Rannsóknasetrinu var veittur 10 milljóna styrkur af Menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna verkefnisins, tilkynning þess efnis var birt á vef stjórnarráðsins, RÚV greindi frá.
Engar fréttir eða tilkynningar er að finna á heimasíðu eða samfélagsmiðlum Rannsóknarseturs verslunarinnar um nýjan forstöðumann eða af hverju Verðgáttin er óvirk. Rannsóknarsetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 og að því standa Menningar- og viðskiptaráðuneytið, VR, Samtök verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandið og Háskólinn á Bifröst að verkefninu.