Eftir að hafa fengið heilablóðfall fyrir tveimur árum vegna hjartagalla og hjartaaðgerðar í kjölfarið þar sem lokað var á milli hjartahólfa átti Svavar eftir að gera upp andlega áfallið sem fylgdi í kjölfarið.
„Svona eftir á að hyggja þá var andlega áfallið enn meira en það líkamlega og var ég talsverðan tíma að vinna úr því hversu tæpt þetta stóð og hvernig lífið getur breyst á örskotstundu. Þá fer maður svolítið að horfa inn á við, einfalda líf sitt og hugsa meira um virðið í litlu hlutunum. Ég fór markvisst í þá vinnu með mínum nánustu og gera upp önnur mál í leiðinni og taka mér stöðu. Það hefur einnig kostað mikið en svona er það stundum að það er til hins betra. Ég hef alltaf verið mjög bjartsýnn og glaðlyndur og finnst læknandi að gera upp kafla í mínu lífi með því að skrifa, semja og gefa út tónlist og vera í flæðinu og það þarf mjög mikið til að hagga mér, ég læt alltaf hjartað ráða för“ lýsir Svavar Viðarsson um sína sigra í lífinu.
Nýlega gáfu tónlistarmennirnir Svavar Viðarsson og Magni út nýja lagið sitt „Aðeins eitt.“ Lagið er hvetjandi lag sem fjallar um að sleppa takinu á fortíðinni, umfaðma hamingjuna í núinu og horfa fram á við. Með hrífandi texta undirstrikar lagið fegurð þess að deila bæði brosi og tárum og minnir okkur á að þegar við látum hjörtu okkar ráða munum við aldrei tapa. Lífið er of stutt fyrir eitthvað minna.
„Aðeins eitt“ er annað samstarfsverkefni Svavars og Magna, eftir útgáfuna „Ekkert hefur breyst“ sem kom út í fyrrasumar og hlaut sæti á vinsældarlista Rásar 2.
Á bak við lagið „Aðeins eitt“ er hæfileikaríka tónlistarfólkið Svavar Viðarsson (Lag, texti og útsetningar), Magni Ásgeirsson (Söngur), Vignir Snær Vigfússon (Rafmagns- og kassagítar, útsetningar, upptökustjórn og hljóðblöndun), Benedikt Brynleifsson (Trommur), Helgi Reynir Jónsson (Hljómborð), Erna Hrönn Ólafsdóttir (Bakraddir) og Skonrokk Studios/Sigurdór Guðmundsson (Hljómjöfnun).
Lagið „Aðeins eitt“ er því nú aðgengilegt á streymisveitum og er hér komið til að veita þér innblástur og gleði inn í daginn þinn.