Hættulegu hægriöfgaflokkarnir

frettinErlent, Evrópusambandið, Geir Ágústsson, Pistlar1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Það hefur verið mikil veisla hjá blaðamönnum seinustu vikur. Þegnar Evrópusambandsins eru þessa dagana að kjósa til Evrópuþingsins og velgengni öfgahægriflokka mikil. Stundum kallaðir fjarhægriflokkar. Stundum popúlískir þjóðernisflokkar. En neikvætt telst þetta.

En fyrir utan að vilja hægja aðeins á stjórnlausu flæði innflytjenda inn í álfuna, og tilheyrandi útþynningu á öllu sem mætti kalla evrópskt (menning, gildi, kristni, hefðir, réttarríki, stuðningsnet fyrir þá sem standa höllum fæti), hvað vilja þessir flokkar annað?

Hvað er svona öfgafullt við stefnu þessara flokka?

Er þar verið að boða vopnaðar götuóeirðir? Fjöldamorð á aðfluttu fólki? Gasklefa? Lög sem mismuna einstaklingum eftir kynþætti? Afnám velferðarkerfisins? Afnám lýðræðis og upptöku flokkseinræðis?

Hvað er svona öfga við þessa flokka, og hvað er svona hægri við þessa flokka?

Grípum niður í setningu úr evrópskum stjórnmálum:

Ríkisstjórnin mun taka upp nýja vinnuskyldu sem kemur í stað óvirks stuðnings með skyldu til að leggja fram 37 klukkustundir á viku fyrir borgara með aðlögunarþörf. Við verðum að mæta nýjum innflytjendum og þeim sem fyrir eru með kröfum og væntingum um standa á eigin fótum. Markmiðið með nýju vinnuskyldunni er að fleiri komist á ... vinnumarkað og fái vinnu.

Einnig, frá öðrum stað í evrópskum stjórnmálum:

Velferðarsamfélag okkar verður aðeins varðveitt ef tilskilin fjárhagsleg samstaða er veitt innan skýrt afmarkaðs og takmarkaðs samfélags.

Já, þetta evrópska öfgahægri! Vinnuskylda! Takmörk á velferðarkerfinu!

Að vísu er fyrri tilvitnunin úr stefnuyfirlýsingu dönsku ríkisstjórnar þriggja miðjuflokka, þar á meðal dönsku Sósíaldemókratanna, sem blaðamenn hafa hingað til ekki kallað öfgahægristjórn. Hin síðari eru úr stefnuskrá þýska flokksins Alternative für Deutschland, en sá flokkur er skipulega kallaður einhvers konar öfgajaðarflokkur þótt hann sé meðal þeirra stærstu í Þýskalandi.

Með öðrum orðum: Það er oft lítið samhengi á milli stefnu flokka og stimpla blaðamanna á þeim. Miklu frekar mætti segja að með orðanotkun sinni séu blaðamenn að sýna og sanna að þeir eru algjörlega úr tengslum við raunheim sífellt fleira venjulegs launa- og fjölskyldufólks sem þykir vænt um samfélag sitt.

Sem er bara fín þumalputtaregla til að hafa í huga þegar fréttir eru lesnar.

Kosningar til Evrópuþingsins breyta engu. Völdin verða áfram í höndum ókjörinna fulltrúa. En kjósendur eru að reyna tjá sig og lýsa yfir ósætti. Mun einhver hlusta og hvað þá bregðast við?

One Comment on “Hættulegu hægriöfgaflokkarnir”

  1. Vinstri-sinnuðu fjölmiðlafólki þykir öll almenn skynsemi, kristileg gildi og heilbrigð lífsviðhorf vera hægri-öfgastefna.

Skildu eftir skilaboð