Ógnar harðlínuíslam Maldíveyja ferðamennskunni?

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Maldíveyjar er klasi kóraleyja í Indlandshafi, helst þekktar fyrir að vera í hættu sakir hækkunar sjávarborðs. Árið 1988 komu þau boð frá ríkisstjórn landsins að landið yrði gjörsamlega komið á kaf eftir 30 ár og byggði það trúlega á spádómum IPCC og þáverandi forseti tilkynnti að tekjur af ferðamennsku yrðu notaðar til að kaupa land sem íbúarnir gætu flutt til þegar eyjarnar yrðu ekki byggilegar lengur. Eyjarnar virðast þó hreint ekki vera að sökkva og enn eru þar byggð háhýsi og farið í dýrar vegaframkvæmdir.

Íbúar Maldíveyja, rúm hálf milljón að tölu, eru nær allir súnní múslimar en hafa verið taldir hófsamir. Vísbendingar eru þó um að það sé ekki alveg rétt. Iðkun annarra trúarbragða en íslam er ekki leyfð, samkynhneigð bönnuð og aðeins múslimar mega hafa ríkisborgarrétt (svo segir Wikipedia). Nýverið lýsti forseti landsins því yfir að þeir sem hefðu ísraelskt vegabréf fengju ekki að koma til landsins og 2018 lét þáverandi forseti eyðileggja styttur er voru hluti af sjávarlistaverkinu Coralarium er bretinn Jason deCaires Taylor hafði skapað. Það átti bæði að veita sjávarlífverum skjól og vera áminning um fallvaltleika lífsins því það fór á kaf á flóði en á fjöru gátu náttúruaðdáendur synt þangað og notið fjölbreytts lífríkisins. Stytturnar voru eyðilagðar að sögn vegna þess að þær þóttu "móðgun við íslam." Samt höfðu stytturnar ekki neina trúarlega merkingu.

Enn ein vísbending er að frá Maldíveyjum kom hæsta hlutfall, miðað við fólksfjölda, þeirra sem fóru til Sýrlands til að berjast með ISIS. Árið 2019 kölluðu stjórnvöld Maldíveyja eftir alþjóðlegri aðstoð því þeir töldu sig ekki ráða við enduruppeldið á þeim allt að 160 borgurum sínum sem voru í fangabúðum í Sýrlandi. Menn höfðu áhyggjur af þeim 30-40 börnum sem voru í fylgd foreldra sinna þar, en töldu að það þyrfti að vera alþjóðleg samvinna um kerfi og stað til að meta hverjir ISIS liðanna væru hæfir til að aðlagast sínu gamla þjóðfélagi. Það er skynsamlegt hjá þeim að vera varkárir því á næsta ári (2020) réðst jíhadisti er tengdist innlendum ISIS samtökum á þrjá ferðamenn (tvo Kínverja og einn Ástrala) með hnífi. Þeir lifðu allir árásina af.

Land sem byggir afkomu sína að miklu leyti á móttöku ferðamanna má ekki við því að landið sé talið óöruggt. Eftir páskadagsárásirnar á Sri Lanka 2019 þar sem innfæddir hryðjuverkamenn er sögðust hliðhollir ISIS leiðtoganum al-Baghdadi réðust á þrjár kirkjur kristinna og þrjú fimm stjörnu hótel og drápu 267, þar af a.m.k. 45 útlendinga, og særðu um 500 þá var spáð 30% fækkun ferðamanna í landinu það árið.

Ef til vill má telja það skynsamlegt að banna Ísraelum að koma til lands sem á mikið undir ferðamennsku en rekur stefnu sem hvetur til íslamskrar öfgahyggju. Yrðu ísraelskir ferðamenn drepnir í landinu þá myndi það vekja stórkostlega athygli og fleiri hópar myndu þá óttast um sinn hag og hætta við að koma og Bandaríkjamenn sem hafa styrkt eyjarnar með tugum milljóna dollara síðustu 20 árin myndu trúlega kippa að sér höndum, ekki síst ef það lægi ljóst fyrir að landinu væri ekki lengur stjórnað af hófsömum öflum.

Skildu eftir skilaboð