Geir Ágústsson skrifar:
Í stjórnarskránni stendur eitthvað um atvinnufrelsi. Slíkt er við lýði, en samt ekki.
Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.
Það sem menn skrifa svo í lögin er að nánari útfærslu eigi að skilgreina í reglugerð. Um leið breytist orðið „almannahagsmunir“ í raun í „pólitískir hagsmunir ráðherra“.
Atvinnufrelsi er þar með bundið við og fundið í reglugerð sem fellur undir valdsvið einhvers ráðherrans, sem um leið er þingmaður.
Kannski er þetta viðeigandi í einhverjum sjaldgæfum málaflokkum, svo sem í þeim er varða „almannahagsmuni“ (til dæmis að banna hárgreiðslumanni að klippa mann en leyfa sama manni að standa í röð inni í áfengisverslun).
En það er ljóst að tengslin milli stjórnarskrár og atvinnufrelsis eru í dag fullkomlega skorin. Atvinnufrelsið er ekki frelsi sem má skerða undir alveg sérstökum aðstæðum, heldur sérstök réttindi sem hið opinbera veitir ef það vill.
Þetta hentar hinu opinbera mjög vel rétt eins og konungum miðalda sem seldu atvinnuréttindi dýrum dómi. En þú, kæri borgari, færð að borga og líða fyrir þetta fyrirkomulag. Gefið, auðvitað, að þú sért ekki opinber starfsmaður.