Páll Vilhjálmsson skrifar:
Starfsmönnum RÚV er bannað að tjá sig við aðra fjölmiðla um málefni ríkisfjölmiðilsins, nema að fengnu leyfi frá yfirmanni. Stefán Eiríksson setti i vor reglur um háttsemi starfsmanna RÚV er búa að vitneskju um lögbrot og ámælisverða starfsemi. Stefán kynnti ekki reglurnar stjórn ríkisfjölmiðilsins. Þó gilda reglurnar einnig um stjórn RÚV.
Markmiðið er að halda upplýsingum innan Efstaleitis sem gætu grafið undan trausti og trúverðugleika fjölmiðilsins. Til að fela raunverulegan tilgang reglnanna segir í fyrstu grein: „Markmið reglnanna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælis verða háttsemi í starfsemi RÚV.“ En hvorki Stefán né starfsmenn RÚV upplýsa lögbrot sem vitað er að stofnunin á aðild að. Tímasetning nýrra reglna er ekki tilviljun.
Tveir starfsmenn RÚV, Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður og Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, eru grunaðir í byrlunar- og símastuldsmálinu. Tengsl við málið hafa einnig Helgi Seljan fréttamaður og Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri. Þau eru öll hætt störfum. Ekkert þeirra hefur greint frá vitneskju sinni um málið nema ef til vill í trúnaðarsamtölum við útvarpsstjóra.
Hvorki Stefán né fréttamenn hafa veitt lögreglu upplýsingar um hvernig það samræmist starfsháttum RÚV að eiga aðild að byrlun og þjófnaði. Samstarfsmenn fréttamannanna búa að upplýsingum um aðdraganda og skipulag byrlunar Páls skipstjóra Steingrímssonar vorið 2021. Nýjar reglur Stefáns eiga að tryggja að upplýsingum sé haldið innanhúss á Efstaleiti. Auk fréttamanna RÚV eru blaðamenn á Heimildinni með stöðu sakborninga í málinu.
Stefán útvarpsstjóri er fyrrverandi lögreglustjóri. Hann býr að reynslu af sakamálarannsóknum. Með því að setja reglur um meðferð upplýsinga innan stofnunarinnar hyggst Stefán ná betri stjórn á upplýsingum sem enn eru innan RÚV um alvarleg lögbrot starfsmanna fjölmiðilsins. Um miðlun upplýsinga segir í nýju reglunum:
Starfsmanni sem hefur grun um eða hefur orðið vitni að lögbroti og/eða annarri ámælisverðri háttsemi í starfsemi RÚV er skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 40/2020 skylt að greina frá því með viðeigandi hætti og í samræmi við reglur þessar. Starfsmaður skal hefja ferlið á innri uppljóstrun með því að miðla öllum upplýsingum til aðila innan félagsins eða til viðeigandi opinbers eftirlitsaðila.
Með „innri uppljóstrun“ er átt við að farið skuli með lögbrot og háttsemi sem samræmist ekki starfsemi RÚV sem innanhússmál. Ytri uppljóstrun, t.d. að tala við aðra fjölmiðla eða lögreglu, er aðeins „heimil í algjörum undantekningartilvikum þegar innri uppljóstrun kemur ekki til greina af gildum ástæðum,“ segir i nýju reglunum.
Reglurnar bera voldugan titil: Verklagsreglur vegna uppljóstrunar starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Ríkisútvarpsins. Reglurnar gilda „um allt starfsfólk Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV), stjórn og verktaka.“ Stefán útvarpsstjóri undirritar þær 21. mars í vor. Daginn eftir var stjórnarfundur RÚV og ekki minntist Stefán einu orði á reglurnar, skv.fundargerð. Ekki heldur voru reglurnar kynntar eða ræddar á stjórnarfundum í janúar og febrúar.
Einstakt er að framkvæmdastjóri félags setji einhliða reglur um hvað stjórnarmenn megi segja og hvað ekki. Stjórn RÚV er skipuð samkvæmt tilnefningu alþingis. RÚV á að heita ríkisstofnun. Útvarpsstjóri lætur eins og RÚV sé einkafyrirtæki í hans eigu og stjórnin sé upp á punt.
2 Comments on “Stefán setur fjölmiðlabann á starfsmenn og stjórn RÚV”
Radio Stazi
Þessi maður er hættulegur íslensku þjóðinni. Að hugsa sér að hann var áður lögreglustjóri! Ekki nema von að fólk talar um Ísland sem Nígería Norðursins. Íslenska þjóðin hefur virkilega sofnað á verðinum með að veita svona manni vald yfir RÚV! En ekki örvænta gott fólk því sannleikurinn ratar alltaf upp á yfirborðið. Ég bíð spenntur.