Geir Ágústsson skrifar:
Í aðsendri grein á visir.is eru færð rök fyrir því að ríkisvaldið eiga að standa í vegi fyrir söluaðilum löglegs neysluvarnings og kaupendum hans. Höfundur kemst svo að orði:
Löghlýðnir borgarar, fyrirtæki, og áhugamenn um íslenskt atvinnulíf hljóta því að spyrja sig nokkurra spurninga ...
Þessi áskorun er mögulega við hæfi, en öllum spurningum er fyrir löngu búið að svara. Þrátt fyrir allt tal um ólöglega smásölu á áfengi þá svara borgarar spurningum á sama hátt: Við viljum frjáls viðskipti með löglegan neysluvarning.
Kannski ekki allir, en nógu margir til að sparka rækilega í báknið og fjósið sem það heldur úti fyrir þæga opinbera starfsmenn sem geta sólundað miklu fé og fjármagnað sóunina með illa reknum verslunum.
Löghlýðnir borgarar spyrja sig nokkurra spurninga oft á dag. Í tilviki viðskipta með áfengi í síauknum mæli þannig að þeir vilji hafa þau ábyrg, dreifð, aðgengileg og bjóði upp á mikið úrval.
Auðvitað sofa margir ekki vel á nóttunni vitandi að sumir hjóla án hjálms, drekki á annan hátt en þeir sjálfir og kjósi öfgahægriflokka, svokallaða. En svona er lífið í frjálsum ríkjum, svona nokkurn veginn. Mæli ég með því að menn finni leiðir til að sofa rólega á nóttunni þótt annað fólk fari stjórnlaust í taugarnar á þeim.
One Comment on “Löghlýðnir borgarar spyrja sig nokkurra spurninga”
„Mæli ég með því að menn finni leiðir til að sofa rólega á nóttunni þótt annað fólk fari stjórnlaust í taugarnar á þeim. “
Þú mættir endilega fara að þínum eigin ráðum þarna, þegar kemur að málefnum t.d transfólks, flóttamanna og mótmælanda svona svo einthvað sé nefnt Geir.