Geir Ágústsson skrifar:
Í opinni og lýðræðislegri umræðu má búast við því að skoðanir séu skiptar. Oft eru málin flókin og á þeim margar hliðar og ekki alveg á hreinu að eitt hafi valdið öðru en miklu frekar að röð atburða yfir lengri tíma hafi þrýst á einhverja þróun mála.
Þar með er ekki sagt að það sé útilokað að ein skoðun sé með algjörri vissu réttari en önnur sem er greinilega byggð á sandi. En fæst mál má einfalda með slíkum hætti.
Tilhneiging okkar er samt sú að sjóða saman svarthvíta heimsmynd. Það gerði utanríkisráðherra Íslands í nýlegum pistli, og má hafa fyrir því samúð enda stjórnmálamaður að reyna réttlæta embættisverk sín. Þetta gerum við þegar við uppnefnum aðra rasista, Gyðingahatara, heimsvaldssinna, kommúnista og hommahatara. Þetta gerum við úr öruggu umhverfi bergmálshella okkar, og jafnvel nafnleysis. En við þetta er ekkert nýtt þótt tæknin hafi auðveldað ferlið. Tæknin hefur auðveldað okkur að þefa uppi fólk sem samsamar sig skoðunum okkar og klappar með manni, jafnvel þótt fjölmiðlar og stjórnmálamenn séu á öðru máli.
Sem færir þennan pistil að spurningu sinni: Ef fíflunum í kringum þig fjölgar, hvað ertu þá?
Eða svo það sé umorðað: Ef þú ert á einhverri skoðun sem meirihlutinn er ekki á, og finnur fylgismenn við hana, ertu þá ekki fífl að draga að þér fífl?
Þessi aðferðafræði er ekki óalgeng. Hana þarf jafnvel ekki að orða sérstaklega. Flestir finna fyrir þörf til að tileinka sér skoðun meirihlutans og skoðanamyndandi fjölmiðla og yfirvalda. Að hafa aðra skoðun gerir þig að einhverju: Álhatti, samsæriskenningasmið, fífli.
Slíkum álfum þarf ekki að mæta með orðum og rökum þótt það sé vitaskuld í boði. Auðveldara er að segja: Þú ert fífl, og í bergmálshelli fífla. Þarna er fífl sem er þér sammála, og þú jafnvel sammála því að viðkomandi sé fífl, og ert þar með fífl. Fífl að draga að þér fífl, og engin ástæða til að ræða lengur við þig.
Fékkstu þér ekki sprautu? Fífl, eins og hin fíflin.
Ertu ósammála utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Fífl.
Ertu sammála henni? Fífl.
Samþykkir þú ekki skattheimtu til að breyta veðrinu? Að pöddur séu góður valkostur við nautakjöt? Að bíllinn þinn sé að tortíma umhverfinu? Að Trump sé þroskaheftur?
Fífl, fífl og aftur fífl, sem lifir meðal fífla.
Við ættum að geta gert betur. Nasisminn var ekki sigraður með uppnefnum, heldur rökum. Vísindin þrífast ekki á einróma áliti heldur gagnrýni og skoðanaskiptum. Lýðræðið dafnar ekki þegar allir eru sammála heldur þegar allir eru að leita að eigin skoðun.
Þegar fíflunum í kringum þig fjölgar, hvað ertu þá?
Þú ert sjálfstæður einstaklingur sem hefur verið svo heppinn að finna aðra sem taka undir eitthvað af því sem þú segir, valfrjálst.
Vertu fífl eins lengi og þú getur þraukað. Umræðan þarf á því að halda.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 9.6.2024
2 Comments on “Þegar fíflunum í kringum þig fjölgar, hvað ertu þá?”
Spyr þig á móti Geir, þegar að í flestum stórum málum er yfirgnæfandi meirihluti fólks á einni skoðun,(loftlagsvá, Trump,bólusetningar, lgbtq+ etc.) en þú alltaf á annari; hefur fjöldinn þá rangt fyrir sér, eða ert það kanski þú sem ert sameiginlegi nefnarinn ?
Ef að 9 af 10 læknum td segja eitt, fylgir þú þá frekar þessum eina ?
Anton, þó að meirihluti fólks láti heilaþvo sig af fjölmiðlum þýðir ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér. Fólk þarf að kynna sér málin og síðan taka sjálfstæða ákvörðun. Dæmin um heilaþvott yfirvalda á almenningi eru fjölmörg, m.a. áróður fyrir Covid-bólusetningu (í þágu lyfjarisanna), proxy-stríð USA og NATÓ í Úkraínu (í þágu hergagnaframleiðenda).
Það er góð regla að skilja að áróður yfirvalda hefur oft annarlega tilgang, og vald yfir almenningi.