Ráðherra leyfir löglega atvinnugrein

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Um daginn spurði ég mig að því, hvort atvinnufrelsi væri varið í stjórnarskrá eða hvort þetta frelsi sé í bara raun sérstök heimild frá ráðherra til að fá að stunda atvinnu, svona eins og þær heimildir sem konungar miðalda veittu til að mega stunda ýmsa starfsemi. Ég hallaðist frekar að því síðarnefnda en var auðvitað bara með vangaveltur.

Ráðherrann sem varð uppspretta þeirrar hugleiðingar hefur nú staðfest vangaveltu mína þegar hann segir við blaðamann:

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir mat­vælaráðherra seg­ir miðflokks­menn steyta hnef­ann með því að íhuga van­traust­til­lögu í henn­ar garð. Hún seg­ir það koma sér spánskt fyr­ir sjón­ir að flokk­ur sem styðji hval­veiðar ætli að leggja fram van­traust á ráðherra sem leyfi þær. 

Hún sem sagt „leyfði“ hvalveiðar, sem er lögleg atvinnugrein.

Ætli allir ráðherrar hugsi með þessum hætti? Að þeir velji og hafni með notkun reglugerða sinna hvaða löglegu atvinnugreinar sleppa við heimsókn lögreglu og hverjar ekki?

Nú fyrir utan að ráðherra „leyfði“ hvalveiðar korteri í upphaf veiðitíma og tókst því þannig í raun að drepa atvinnugreinina. Sem var sennilega markmiðið til að sleppa þannig við örlög forvera síns og um leið geta sagst hafa farið að lögum.

Þessir ráðherrar eru orðnir að stjórnlausum smáríkjum í ríkinu rétt eins og margar opinberar stofnanir og auðvitað sveitarfélögin. Menn eru látnir bíða bótalaust svo mánuðum skiptir eftir einföldum leyfum til að mega hefja rekstur. Áður fyrr mátti hefja rekstur og sæta í kjölfarið eftirliti, en núna eru breyttir tímar.

Svo breyttir að ráðherrar tala opinskátt um að leyfa eða banna ákveðnar atvinnugreinar, með reglugerð!

Auðvitað verður ekkert gert í þessu og skaðinn heldur áfram að hlaðast upp. Menn þurfa að vera milljónamæringar til að geta komist í gegnum reglugerðafrumskóginn, hugmyndir eru drepnar í fæðingu og neytendur fá á endanum að borga reikninginn.

En kannski einhverjir opinberir starfsmenn fái í staðinn klapp á bakið frá Evrópusambandinu.

Er það ekki helsta markmið hins opinbera á Íslandi?

Skildu eftir skilaboð