Á basísku mataræði í baráttunni við krabbamein

frettinHeilsan, Innlent1 Comment

Á Heilsuhringnum er Rætt við Guðrúnu Eiríksdóttur, tölvunarfræðing um krabbameinsmeðferð og breytingar á mataræði.

Árið 2019 fann Guðrún lítinn bólguhnút í náranum og leitaði til læknis. Fyrst var talið að um kviðslit væri að ræða en fljótlega kom í ljós að bólgan var stækkaður eitill. Frekari sýni voru tekin og send í rannsókn erlendis. Þaðan kom staðfesting um að þetta væri leghálskrabbamein.

Uppruni þess var rakinn til þess að átta og hálfu ári áður hafði Guðrún gengist undir legnám vegna frumubreytinga í legi. Það var þá á algjöru forstigi og var talið nokkuð víst að með legnáminu hefði náðst að koma í veg fyrir útbreiðslu, en sú virðist ekki hafa verið raunin.

Nánari rannsókn í jáeindaskanna leiddi í ljós marga klasa sýktra eitla í neðra kviðarholi. Þeir lágu frá vinstri nára, upp með ósæðinni og yfir í hægri nára. Meinið var víðtækt og lá nærri ósæðinni þannig að ljóst var að það var ekki skurðtækt og hættulegt að nota geisla vegna nálægðar við önnur líffæri.

Nú gefum við Guðrúnu orðið:

Ég mun aldrei gleyma fyrstu samskiptum mínum við krabbameinslækninn sem sagði: ,,Guðrún þú veist að þetta er ólæknandi”. Mér varð mikið brugðið og sagði: ,,Ég hlýt að eiga einhver ár eftir”. Læknirinn savaraði: ,, Jú það eru til dæmi um það”.

Annar læknir gaf mér örlitla von þegar hann sagði: ,,Já Guðrún mín, samkvæmt bókinni er þetta ólæknandi en við erum alltaf að sjá eitthvað gerast sem fer ekki eftir bókinni”.

Sögðu lyfjameðferð einu leiðina

Læknarnir sögðu að eina leiðin fyrir mig væri lyfjameðferð. Ég fór heim með þessar fréttir og sagði við manninn minn: ,,Á ég að fara í einhverja hræðilega lyfjameðferð þegar þetta er alveg vonlaust hvort sem er?“. Mér fannst það tilgangslaust. En sem betur fer ýttum við þessari hugsun til hliðar og ég fór í 8 stórar lyfjagjafir.

Ég fann strax eftir fyrstu lyfjagjöfina að bólgan í náranum minnkaði. Eftir þrjár lyfjagjafir voru teknar myndir og þá sást að það var mikil minnkun. Á myndum eftir 6 lyfjagjafir sást að áfram hélt þetta í rétta átt. Að lokum eftir 8 lyfjagjafir komu engin merki fram á myndunum og allt krabbamein virtist horfið. Þá tók við viðhaldsmeðferð þar sem eitt lyf var gefið á þriggja vikan fresti í 20 skipti í viðbót. Að þeim tíma liðnum var ákveðið að hætta öllum lyfjum þar sem ég virtist hafa náð að ráða bug á sjúkdómnum.

En fjórum mánuðum seinna haustið 2021 var krabbameinsvirkni aftur farin að greinast í nokkrum eitlunum. Ég fór aftur í 6 lyfjagjafir og ákveðið var að setja mig í geisla líka í þetta skiptið. Því fylgdi ákveðin áhætta þar sem önnur líffæri voru í hættu en ég var tilbúin að taka þá áhættu. Ég fór í 25 skipti af geislum og þann fimmtánda júní árið 2022 lauk ég geislameðferðinni. Síðan þá hef ég ekki fengið neina meðferð hvorki lyf né annað. Samkvæmt lækninum mínum er mesta hættan á að þessi tegund krabbameins komi aftur strax fyrsta árið eftir að lyfjagjöf lýkur, eins og gerðist hjá mér eftir fyrri meðferðina. Áhættan er líka mikil annað árið en eftir það minnka líkurnar mikið. Það eru að verða liðin tvö ár liðin hjá mér frá því meðferð lauk og ég leyfi mér að vera bjartsýn.

Strax í upphafi veikindanna spurði ég læknana: „get ég ekki gert eitthvað sjálf?“ En aldrei vildu þeir gefa mér ráð. Þá spurði ég: „En hvað með sykurinn?“ Þá svaraði einn: „Sykurinn er nú ekki góður fyrir neinn“.

Krabbameinsfrumur elska sykur

Svo fór ég á fyrirlestur um mataræði. Fyrirlesarinn byrjaði á að að biðja viðstadda sem elskuðu sykur að rétta upp hönd. Allir inni gerðu það. Þá sagði fyrirlesarinn „þið eruð alveg eins og krabbameinsfrumurnar, þær elska sykur.“ Þetta hafði svo mikil áhrif á mig að ég ákvað strax að taka sykur út úr mínu lífi. Einnig hafði læknirinn minn sjálf fengið krabbamein og ég komst að því að hún hafði hætt að neyta mjólkurvara eftir greininguna. Hún sagði: ,,Kálfarnir drekka mjólk en ekki kýrnar”. Hennar mat var að ungviði þyrfti mjólk en ekki fullorðnir. Ég hafði þá þegar verið búin að taka mjólkurvörur út en það var gott að fá staðfestinguna.

Í febrúar árið 2020 þegar ég var hálfnuð í fyrri meðferðinni var ég sífellt að reyna að hlera meira um mataræði en sá þá viðtal í Fréttablaðinu við konu sem hafði greinilega verið að fást við sams konar krabbamein og ég. Hún var að fagna því að hafa lokið fimm árum frá krabbameinsmeðferð og hélt upp á það með því að ganga yfir Vatnajökul. Litla Ísland er þannig að ég var komin í kaffi til konunnar fjórum dögum síðar.

Basískt mataræði

Þessi kona hafði breytt yfir í basískt mataræði á meðan hún var í sinni meðferð. Hún hafði eins og ég fengið ,,rauða spjaldið” um að allt væri vonlaust. Á svipuðum tíma frétti ég af fleiri konum í sömu stöðu, þ.e. sem fengið höfðu leghálskrabbamein og ákváðu að berjast við það með aðstoð sama mataræðis. Ég þurfti ekki að spjalla lengi við konuna þegar ég ákvað að þetta mundi ég gera líka og fullvissan um að ég mundi sigrast á krabbameininu jókst til muna.

Basískt mataræði gengur út á það að halda sýrustigi líkamans í jafnvægi og leitast eftir því að pH-gildið sér hærra en 6. Í raun má segja að í grófum dráttum þá gengur þetta mataræði bara út á það að auka grænmetisneyslu til muna. Borða hollan mat og forðast það óholla.

Tók út rautt kjöt af því að það er mjög sýrugæft. Þeir sem eru róttækir taka líka út egg, ljóst kjöt og fisk nema rauða fiskinn. Þegar kom að því hjá mér að taka út það sem ég taldi hollt eins og fisk setti ég varnagla. Þess vegna borða ég fisk, sérstaklega vatnasilung. Ég elda hann á heilsusamlegan hátt, brasa ekki, en baka fiskinn og hef fullt af grænmeti með. Fyrst hætti ég við allt kjöt en er nú farin að borða hvíta kjötið.  Grænmetisneysla mín jókst mikið og ég borða allar tegundir grænmetis.

Í fyrstu sniðgekk ég ávexti vegna ávaxtasykursins en svo fór næringarfræðingur yfir þetta hjá mér og sagði mér að halda þeim inni vegna þess hve mikið væri af góðum vítamínum í þeim. Þó sagði hún að allt er gott í hófi og óþarfi að borða mjög mikið magn af ávöxtunum.

Mér fannst erfiðast að hætta að drekka kaffi. Það var minnkað niður í einn bolla á dag sem oftast er drukkinn fyrripart dagsins. Engin sérstök tegund, bara gott kaffi til að njóta.

Prófaðir þú fleiri gerðir af mataræði?

Ekki eftir að krabbameinið fannst. En svona fimm mánuðum áður ákváðum ég og dóttir mín að breyta yfir á ketófæði og í fjóra mánuði var ég á ströngu ketófæði. Ég hætti því stuttu áður en ég fann bólguna í náranum. Þá borðaði ég mikið af rjóma, ostum, beikoni og rauðu kjöti. Tók út rótargrænmeti og önnur kolvetni. Í mínum huga er margt af þessu mjög bólgumyndandi og spurningin af hverju hélt líkami minn krabbameininu niðri í átta og hálft ár meðan ég var á mínu venjubundna mataræði? Af hverju varð ég vör við skyndilega stækkun á eitlinum í náranum þegar ég var búin að vera á ketófæði í 4 mánuði?

Léttist hratt um 10 kíló

Þegar ég byrjaði á basíska fæðinu léttist ég hratt um 10 kíló enda margir sem nota það sem megrunarkúr og ég átti í dálitlum vanda að léttast ekki of mikið. En líkaminn fann jafnvægi og mér líður ljómandi vel í dag. Ég hef heyrt af fólki sem segist hafa læknast af krabbameini bara með því að fara á basískt mataræði. Það myndi ég ekki ráðleggja. Ég tel að lyfin hafi bjargað mér en að basískt mataræði sé ofboðslega góður stuðningur.

Fyrstu vikunum eftir krabbameinsgreininguna líki ég oft við rússíbana. Dagarnir voru upp og niður og ef einhver hefði komið og sagt við mig þá í upphafi að ég ætti endilega að breyta mataræðinu þá hefði ég endanlega bugast. Nægar voru breytingarnar og álagið. Við fólk sem er nýbúið að greinast segi ég að það að breyta mataræðinu var eitthvað sem hentaði mér og ég fór af stað þegar ég var tilbúin, en það er ekki þar með sagt að það sé eitthvað sem henti öllum.

Vinir og vandamenn vilja alltaf vel með ýmsum ábendingum en það þarf að fara varlega í allar ráðleggingar. Sjúklingurinn verður að stjórna ferðinni algjörlega sjálfur, án utanaðkomandi pressu um að hann sé ekki að gera allt það sem hann getur sjálfur í baráttunni. Lyfjagjöfin og álagið er oft nógu stór pakki.

Ljósið félag krabbameinssjúkra

Ég nýtti mér þjónustuna hjá Ljósinu og hef kynnst mörgum þar. Í Ljósinu vissu margir hvað ég gerði en það voru mjög fáir sem fóru sömu leið og tóku mataræðið öfgakennt í gegn eins og ég. Það má reyndar gjarnan koma fram að í Ljósinu er hægt að fá hádegismat þar sem eldaðir eru þeir bestu grænmetisréttir sem ég hef smakkað. Það voru líka fleiri þættir sem ég lagði áherslu á en það var hreyfingin, andlegur styrkur og að forðast streitu. Ljósið hjálpaði mér mikið við alla þessa þætti. Ég sótti ýmiskonar námskeið og var dugleg að mæta í líkamsræktina sem þar er í boði. Ég hef alla tíð verið dugleg að hreyfa mig og má þar fyrst nefna blak og golf en ég á það líka til að reima á mig hlaupaskóna eða skreppa í stutta fjallgöngu.

Til vinstri er mynd af Guðrúnu í golfi en til hægri er mynd ad henni i blaki

Forgangsraðar öðruvísi eftir veikindin

Ég spái mikið í það hvað það er sem veitir mér ánægju í lífinu og reyni að framkvæma núna, ekki seinna. Í fyrravetur treysti ég mér ekki til að fara strax að vinna. Þá tók ég að mér að vera dagmamma fyrir dóttur mína og fékk til mín barnabarnið á hverjum morgni, algjör forréttindi. Ég hóf svo störf aftur í haust sem verkefnastjóri hjá Össuri en með því starfi hafði ég líka verið að sinna uppbyggingu á nátturulauginni Hrunalaug með systkinum mínum og fjölskyldum. Þar fann ég að ræturnar í sveitinni toguðu mikið og ákvað ég því í vor að helga mig alveg sveitinni og tækifærunum sem þar finnast.

Hér birtast tvær af uppáhalds uppskriftum Guðrúnar.

Fræbrauð Lúllýar

4 dl gróft spel
1 dl graskersfræ
1 dl haframjöl
1 dl sólblómafræ
1 msk lyfitduft (vínsteins)
1 tsk himalaya salt
5 döðlur (eftir smekk, má sleppa)
3 msk kókosolía
3 dl kalt vatn

 Öllum þurrefnum blandað saman í skál. Döðlum og kókosolíu er þá bætt út í og að lokum er vatni hrært rólega saman við. Látið degið standa í um 5 mínútur í skálinni. Setjið á plötu með smjörpappír undir og mótið degið. Gott að bleyta fingur með vatni áður en degið er mótað. (má líka baka í formi). Bakið í 40 mínútur á blæstri  við 180°C. Leggið rakt stykki yfir þegar brauðið er tekið úr ofninum og látið kólna þannig.

Hrökkkexið góða

1 dl sólblómafræ
1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
1 dl graskersfræ
1 dl gróft haframjöl glútenlaust
3 dl gróft spelt
1 tsk himalaya salt
2 msk næringager
2 dl vath
1¼ dl olía

Þurrefnum blandað saman í stórri skál. Vatni og olíu blandað saman í glasi og hrært út í þurrefnin. Smjörpapír er settur á 2 ofnplötur og deiginu er skipt jafnt á þær. Flatt út með því að pressa á smjörpappírsörk ofan frá. Skorið með pitsuskera í bita áður en það fer í ofninn og gott er að strá svolitlu himalaya salti yfir. Bakið við undir og yfir hita 180° í 20-23 mín.

Á þessari slóð hefur verið birt fræðsla og uppskriftir og mikið af góðu efni. Það þarf bara aðeins að leita á síðunni hans og er gott að skrá sig og fá pósta frá honum:

Á þessari síðu er fræðsluefni.

Hér eru slóðir sem Guðrún hefur sótt uppskriftir á:

https://www.himneskt.is/uppskriftir/

https://www.hilduromars.is/uppskriftir

https://alberteldar.is/category/vegan/

Ingibjörg Sigfúsdótir færði viðtalið í letur í 17. maí 2024

One Comment on “Á basísku mataræði í baráttunni við krabbamein”

  1. Til upplýsingar þá má hér nálgast áhugaverða og vandaða heimildaþætti um aðrar leiðir en hinar ,,hefðbundnu“ til meðferðar á krabbameini og öðrum alvarlegum sjúkdómum og ekki síst sem fyrirbyggjandi. Einstakt tækifæri til að kynna sér efnið þar sem núna er opið áhorf á alla þættina í takmaðan tíma.
    „[Special surprise!] Watch all 20 Cancer Secrets Episodes this Replay Marathon,!“ https://cancerseries.org/replays/

Skildu eftir skilaboð