Þjóðfylkingin, stefnir að því að einkavæða ríkisfjölmiðilinn í Frakklandi, nái flokkurinn hreinum meirihluta í komandi þingkosningum. Flokkurinn nýtur nú rúm 30% fylgis sem fer hækkandi.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti boðaði til kosninga í skyndi eftir að flokkur hans hlaut helmingi færri atkvæði en Þjóðfylkingin í Evrópukosningum á dögunum. Gengið verður til kosninga í Frakklandi eftir tvær vikur.
Samkvæmt skoðanakönnunum mælist Þjóðfylkingin með mest fylgi um þessar mundir, en kosningarnar fara að öllum líkindum fram í tveimur umferðum.
Miklar breytingar gætu orðið ef Þjóðfylkingin undir forystu hins vinsæla stjórnmálamanns Jordan Bardella, fær meirihluta í þingkosningunum í sumar. Bardella er 28 ára gamall.
Guardian greinir frá því að að flokkurinn stefni á að einkavæða sjónvarps- og útvarpsrásir Frakklands sem fjármagnaðar eru af ríkinu. Bardella sagði í viðtali að salan myndi spara þrjá milljarða evra.
Frakkland þarf „smá frelsi, smá súrefni,“ eins og Bardella komst að orði. Margt af því efni sem væri flutt á ríkismiðlinum væri „vinstrisinnað eða öfgavinstrisinnað“ og það ætti ekki að vera „tabú“ að ræða einkavæðingu. Nánar er fjallað um málið í frétt Guardian.