Geir Ágústsson skrifar:
Sjóðstjóri sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýmarkaðsríkjum segir að finna megi marga spennandi fjárfestingakosti í þeim löndum. Nefnir hann í því samhengi Kína, Indland, Brasilíu og Suður-Afríku. Hagvöxtur sé mikill í þessum ríkjum og gjarnan vel yfir hagvexti í þróaðri hagkerfum.
Þá höfum við það.
En það er mögulega svolítill vandi á ferðinni hér fyrir fjárfesta á Vesturlöndum. Nú vill svo til að Kína, Indland, Brasilía og Suður-Afríka eru aðilar að samstarfi með engum öðrum en Rússum, og kallast það í bili BRICS (Brazil, Russia, India, China, South-Africa), en nýir meðlimir hafa streymt að á seinustu misserum og margir umsækjendur bíða eftir inngöngu.
Aðilar BRICS vilja minnka vægi dollarans í alþjóðaviðskiptum og lágmarka skaðann af stjórn Vesturlanda á fjármálakerfi heimsins sem hefur núna verið vopnavætt til að styðja við herskáa utanríkisstefnu Bandaríkjanna, svo sem með því að stela eignum, frysta peninga og hindra flutninga á fjármagni. Það þarf engan sérfræðing með doktorsgráðu til að sjá að slíkar aðgerðir hafi afleiðingar og ekki endilega á þann hátt sem menn sáu fyrir.
Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru hagkerfin sem í fyrirsjáanlegri framtíð munu standa undir megninu af verðmætasköpun heimsins. Í þeim er ekki verið að stöðva orkuöflun heldur hraða á henni. Í stað viðskiptahindrana eru viðskipti að aukast. Í stað fólksfækkunar er fólksfjölgun.
Auðvitað er staða mannréttindamála oft slæm og lýðræði vart að finna í sumum ríkjanna sem við köllum nýmarkaðsríki. En þetta er víða á réttri leið. Með auðsköpun verður til millistétt og með millistétt myndast krafa á yfirvöld að dreifa völdunum, hreinsa umhverfið, byggja innviði og bæta mannréttindi, og á meðan þetta getur tekið lengri tíma en við kærum okkur um þá er enginn valkostur við auðsköpun til að auka völd borgaranna.
Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru ríki sem eru að hefja flugið á meðan Vesturlönd þurfa að undirbúa brotlendingu.
Það er alls ekki víst að þau hreinlega kæri sig um peninga okkar og hvað þá stjórn okkar. Sjóðsstjórar á Vesturlöndum þurfa mögulega að smakka sama meðal og Vesturlönd hafa reynt að gefa nýmarkaðsríkjunum.
Það má bara vona að Vesturlönd hætti fljótlega að reyna koma á heimsstyrjöld sem tortímir okkur öllum og fari í staðinn að taka þátt í samstarfi við aðra heimshluta. En bjartsýni mín er hófsöm.