Páll Vilhjálmsson skrifar:
Ritstjóri Heimildarinnar, Þórður Snær Júlíusson, er grunaður í byrlunar- og símastuldsmálinu ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Ritstjórinn fékk stöðu sakbornings í febrúar 2022 en tafði rannsóknina um hálft ár með því að mæta ekki í yfirheyrslu fyrr en í ágúst.
Á X, áður Twitter, barmar Þórður Snær sér yfir réttarstöðunni, að vera grunaður um hegningarlagabrot í rúm tvö ár. En svo háttar til að Þórður Snær sjálfur og félagar hans á RSK-miðlum bera ábyrgð á fimm ára gömlu sakamáli sem enn er í rannsókn. Starfsmenn Samherja eru með stöðu sakborninga.
„Saksóknari segist vonast til þess að rannsókn ljúki bráðlega. Meginástæða tafa á rannsókninni segir hann vera bið eftir gögnum sem ekki er þó víst að berist nokkurn tímann.” Við bíðum þá bara út í eilífðina. #idiocracy https://t.co/OLw5jMd8bb
— Þórður Snær Júlíusson (@thordursnaer) June 24, 2024
Hér er auðvitað átt við Namibíumálið, ásakanir ógæfumannsins Jóhannesar Stefánssonar sem ásakar árið 2019 Samherjamenn um mútugjafir í Afríkuríkinu. Fréttaefni í RÚV, Stundinni og Kjarnanum, er byggir allt á einni og sömu heimild, ótrúverðugri í meira lagi, er tilefni og ástæða rannsóknar héraðssaksóknara á meintum mútum. Engin rannsókn hefði farið af stað ef ekki væri fyrir RSK-miðla. Blaðamaðurinn Ingi Freyr á Stundinni/Heimildinni, meðsakborningur Þórðar Snæs, bjó Namibíumálið í hendur bróður síns Finni Þór Vilhjálmssyni saksóknara við embætti héraðssaksóknara.
Byrlunar- og símastuldsmálið er af allt öðru sauðahúsi. Í Namibíu urðu engir atburðir nema í heilabúi Jóhannesar. Páli skipstjóra Steingrímssyni var aftur byrlað 3. maí 2021. Síma hans var stolið og færður á Efstaleiti til afritunar. Fyrir byrlun keypti Þóra Arnórsdóttir Samsung-síma, samskonar og Páls, og fékk á hann símanúmer keimlíkt Páls, 680 2140 en sími skipstjórans hafði númerið 680 214X.Fréttir birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021 með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Allt liggur þetta fyrir í formi gagna og málsskjala. Enginn heilaspuni líkt og í Namibíumálinu heldur grjótharðar staðreyndir.
Ásetningur og skipulag er yfir og allt í kring um byrlunar- og símastuldsmálið. Hvorki Þórður Snær né aðrir sakborningar hafa gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu. En Þórður Snær barmar sér reglulega yfir lögreglurannsókn sem hann kallaði yfir sig sjálfur.