15% Sjálfstæðisflokkur

frettinInnlent, Stjórnmál1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Annar borgaraflokkanna í ríkisstjórn, Framsókn, heldur sjó með tíu prósent fylgi en móðurflokkur íslenskra stjórnmála er kominn niður í 15 prósent. Lætur nærri að Samfylking sé tvöfalt stærri. Jú, þetta er könnun og ár er til kosninga.

Staða Framsóknar og fylgisaukning Miðflokksins, sem fékk 5% í síðustu kosningum en mælist nú með 13% fylgi, sýnir að kjósendur eru ekki afhuga borgaralegri pólitík. Samfylking tók að vaxa er flokkurinn hallaði sér til hægri, hætti við ESB-aðild, samþykkti meiri skynsemi í útlendingamálum og talar fyrir heilbrigðum ríkisfjármálum. En móðurflokkurinn er rúinn trausti.

Ýmis mál eru nefnd sem ástæða fylgistaps Sjálfstæðisflokksins. Tiltekin og afmörkuð málefni hafa áhrif af val kjósenda, minna þó í könnunum en kosningum. Þeir sem svara spurningakönnun vita að þeir eru að gefa álit en ekki greiða atkvæði. Í kosningum eru yfirleitt, þó ekki alltaf, tiltekin mál sem þykja brýnni en önnur. Flokkar hafa flogið hátt í skoðanakönnunum en brotlent í kosningum. Í skoðanakönnunum eru engin kosningamál. Svarendur gefa álit, segja sína skoðun eins og mál standa.

Aðeins 15 prósent kjósenda hafa það álit að móðurflokkurinn sé besti kosturinn. Ef einstök og afmörkuð málefni eru lögð til hliðar er tvennt sem má nefna sem nærtækar skýringar.

Fyrir samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka, árið 2017, sat Sjálfstæðisflokkurinn uppi með arf hrunsins, klíkukapítalisma. Viðbrögð við hruninu voru að elta Samfylkinguna í kratisma, gera gælur við ESB (upptak evru), vöxt opinberra stofnana og fleira af því tæi. Eftir 2017 er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í ríkisstjórn með Vinstri grænum, sérlunduðum flokki með trúarstef eins og transhugmyndafræði og manngerða hlýnun á dagskrá - auk opingáttarstefnu í útlendingamálum.

Sögulegur styrkur Sjálfstæðisflokksins er efnahags- og atvinnumál. En vegna arfleifðar hrunsins er flokkurinn enn skilorði. Salan á ríkishlut Íslandsbanka sýndi það. Salan var klúður en ekki nærri eins stórt og hamfarirnar sem mættu móðurflokknum gáfu til kynna. Fólk man enn hrunið og minnsti vottur um að sömu öflum verði gefinn laus taumurinn kallar á hörð viðbrögð. Af þessu leiðir liggja sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins ekki í einhverju snjöllu og sniðugu á sviði viðskipta- og efnahagsmála. Það mun alltaf enda illa.

Stjórnmál seinni ár snúast meira um gildi og lífssýn en krónur og aura. Þættir eins og verðbólga, vextir og atvinnustig eru enn á sjónsviði kjósenda en hafa hlutfallslega minna vægi en áður. Gildir ekki síst þegar vel árar.

Í gildum og lífssýn líður Sjálfstæðisflokkurinn fyrir að vera almenni þjóðkirkjuflokkurinn, lætur aðra um að móta stefnuna, fylgir í humátt eftir tískunni hverju sinni. Hver er stefna flokksins í transmálefnum? Hefur flokkurinn svarað hvort hann telji kyn líffræðilega staðreynd eða hugarfar? Verður karl kona með yfirlýsingunni einni saman: ég er kona? Í loftslagsmálum, sem snúast um gildi og lífssýn, tekur Sjálfstæðisflokkurinn upp stefnu Vinstri grænna. Enginn munur er á Gulla og Gumma í umhverfisráðuneytinu. Hvað með málaflokkinn lög og reglu? Hver er munurinn á Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum? Hvað með einkastríðÞórdísar Kolbrúnar gegn Rússlandi? Hvaðan kom sú hugdetta?

Með 15 prósent fylgi hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur efni á að láta aðra móta stefnuna. Í yfirstandandi menningarstríði fær flokkur án kjölfestu á valdi tískusjónarmiða lélega útkomu. Spyrjið bara Rishi Sunak formann Íhaldsflokksins breska og forsætisráðherra Bretlands þangað til á fimmtudag í næstu viku.

One Comment on “15% Sjálfstæðisflokkur”

  1. Þið uppskerið eins og sáð var, Það verður athyglisvert ef að Sjallarnir fara sömu leið og Vg

Skildu eftir skilaboð